Umfjöllun, viðtöl og myndir: Leiknir R. - ÍA 2-1 | Leiknismenn í undanúrslit í fyrsta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leiknismenn fagna í kvöld.
Leiknismenn fagna í kvöld. Vísir/Ernir
Leiknir R. komst í kvöld í undanúrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn í sögu félagsins eftir 2-1 sigur á ÍA eftir framlengdan leik á Leiknisvelli. Elvar Páll Sigurðsson skoraði sigurmarkið á 96. mínútu.

Leiknismenn spiluðu vel í fyrri hálfleik og komust yfir á 24. mínútu þegar Arnór Snær Guðmundsson skallaði boltann í eigið mark eftir fyrirgjöf Ragnars Leóssonar, Skagamannsins í liði Leiknis.

Garðar Gunnlaugsson jafnaði metin úr vítaspyrnu á 61. mínútu og Skagamenn lágu á Leiknismönnum það sem eftir lifði venjulegs leiktíma.

En Breiðhyltingar héldu út og náðu svo forystunni snemma í framlengingunni. Eftir það vörðust þeir vel og lönduðu sigrinum.

Dregið verður í undanúrslitin í hádeginu á morgun. Auk Leiknis verða FH, ÍBV og Stjarnan í pottinum.

Af hverju vann Leiknir?

Heimamenn spiluðu góðan fótbolta í fyrri hálfleik og voru sanngjarnt yfir í hálfleik. Forystan hefði jafnvel getað verið meiri því Ingvar Þór Kale varði frá Sævari Atla Magnússyni úr sannkölluðu dauðafæri þegar skammt var til hálfleiks.

Skagamenn unnu sig alltaf betur og betur inn í leikinn eftir því sem leið á seinni hálfleikinn. Garðar jafnaði á 61. mínútu og á lokakaflanum þjörmuðu gestirnir að dauðþreyttum heimamönnum sem gerðu þó nóg til að koma leiknum í framlengingu.

Þar sýndu Leiknismenn mikinn styrk, komust yfir og vörðust svo virkilega vel það sem eftir var.

Þessir stóðu upp úr:

Halldór Kristinn Halldórsson átti stórkostlegan leik í vörn Leiknis; stjórnaði henni vel og skallaði óteljandi bolta í burtu.

Elvar Páll var góður í fyrri hálfleik, hvarf í þeim seinni en var svo frábær í framlengingunni þar sem hann skoraði sigurmarkið og hélt boltanum vel.

Eyjólfur Tómasson átti afbragðs leik í marki Leiknis og var sérstaklega öflugur í teignum. Annars var góður heildarbragur á liði Leiknis og leikmenn þess unnu vel fyrir hvorn annan.

Hallur Flosason átti mjög góða innkomu í lið ÍA og þá áttu Steinar Þorsteinsson og Þórður Þorsteinn Þórðarson ágæta spretti.

Hvað gekk illa?

Skagamenn voru lengi í gang og áttu í basli með að finna lausnir á varnarleik Leiknismanna. Gestirnir frá Akranesi færðust allir í aukana eftir jöfnunarmarkið og annað mark lá í loftinu. Það kom hins vegar ekki og Skagamönnum hefndist fyrir það.

Garðar skoraði mark ÍA en var þess utan slakur og í vasanum á Halldóri Kristni og félögum. Félagi hans í framlínu Akurnesinga, Tryggvi Hrafn Haraldsson, hefur einnig leikið betur.

Hvað gerist næst?

Leiknismenn mæta Þórsurum í Inkasso-deildinni á fimmtudaginn og þurfa sigur til að fjærlægjast fallsvæðið. Breiðhyltingar bíða svo væntanlega spenntir eftir bikardrættinum á morgun.

Skagamenn fá Víkingana hans Loga Ólafssonar í heimsókn í Pepsi-deildinni á mánudaginn kemur. Viku síðar mæta þeir svo hinu Víkingsliðinu í miklum fallslag.

Halldór Kristinn: Þetta eru skemmtilegustu leikirnir

„Þetta bikarævintýri heldur áfram og vonandi höldum við áfram að koma öðrum á óvart,“ sagði alsæll Halldór Kristinn Halldórsson, miðvörður Leiknis R., eftir sigurinn á ÍA í kvöld. Með honum tryggðu Leiknismenn sér sæti í undanúrslitum Borgunarbikarsins í fyrsta sinn.

„Þetta var rosalega erfiður leikur á móti sterku liði. Við lögðum okkur alla fram og uppskárum eftir því.“

Leiknismenn spiluðu flottan fótbolta í fyrri hálfleik og voru sanngjarnt yfir að honum loknum. En í þeim seinni tóku Skagamenn yfir og voru líklegri aðilinn.

„Þetta er sagan okkar í sumar; við eigum góðan fyrri hálfleik. En mér leið betur í seinni hálfleik en oft áður. Mér fannst við skynsamir,“ sagði Halldór sem skallaði ófáa boltana frá marki Leiknis í kvöld.

„Það var nóg að gera og þannig á það að vera. Þetta eru skemmtilegustu leikirnir; mikið að gera, mikið af tæklingum og sköllum og mikil læti. Þetta var örugglega frábær skemmtun fyrir áhorfendur.“

Leiknismenn verða í pottinum þegar dregið verður í undanúrslit Borgunarbikarsins á morgun. En á Halldór sér óskamótherja?

„Nei, nei. Ég ætla ekki að fara svo langt. Við gefum öllum leik. Ef við spilum svona náum við að stríða hvaða liði sem er,“ sagði Halldór.

En kitlar það ekkert að mæta Stjörnunni sem er með nokkra Leiknismenn innan sinna raða?

„Jú, það væri gaman. Það er kannski óskamótherjinn. Það væri gaman að fá að sparka aðeins í Hilmar Árna [Halldórsson] og hlusta á Óttar Bjarna [Guðmundsson] væla aðeins. Það væri ákjósanlegt,“ sagði Halldór léttur að lokum.

Gunnlaugur: Kom stress í okkur

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, var að vonum svekktur eftir tap Skagamanna fyrir Leikni R. í kvöld.

„Maður er svekktur. Það er langt síðan liðið hefur komist í undanúrslit og það er gífurlega svekkjandi að falla úr leik,“ sagði Gunnlaugur eftir leik.

Skagamenn voru undir í hálfleik en bættu leik sinn eftir hlé og þjörmuðu hressilega að Leiknismönnum undir lok venjulegs leiktíma. En sigurmarkið kom aldrei.

„Þegar 25 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma lifnuðum við fyrst, spiluðum vel, þjörmuðum að þeim og sköpuðum færi. En það þarf að skora úr þessum færum,“ sagði Gunnlaugur.

„Það gerði okkur erfitt fyrir að lenda undir svona snemma í framlengingunni. Þá fórum við að flýta okkur og það kom stress í okkur. Engu að síður fengum við færi til að koma þessu í vítaspyrnukeppni. En Leiknir vann fyrir þessu, þeir gáfu sig alla í þetta og ég vil óska þeim til hamingju,“ bætti Gunnlaugur við.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira