Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, mun heimsækja Pólland í dag á leið sinni á fund leiðtoga G20-ríkjanna í Hamborg um helgina. Þar mun hann halda ræðu á Krasinski torgi og funda með leiðtogum Póllands og Króatíu. Á næstu dögum mun hann einnig funda með leiðtogum Eystrasaltsríkjanna og ríkja við Svartahaf og Adríahaf.
Fjölmiðlar í Póllandi segja frá því að heimamenn hafi lofað Trump að honum yrði vel tekið við komuna til landsins. Trump þykir ekki vinsæll forseti á heimsvísu og nýleg könnun þar að lútandi kom illa út fyrir forsetann.
Sjá einnig: Jarðarbúar bera lítið traust til Trump.
Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar stendur til að flytja góðviljaða áhorfendur víðsvegar að til þess að hlusta á ræðu Trump. Það vilji ríkisstjórnin gera til þess að standa við það loforð að vel yrði tekið á móti honum í Póllandi.
Síðast kom forsetinn til Evrópu í maí og komu þar upp nokkur vandræðaleg atvik fyrir Trump. Meðal annars gagnrýndi hann marga af leiðtogum Evrópu fyrir að eyða ekki nóg í varnarmál. Þá vakti vandræðalegt handaband hans og Emmanuel Macron mikla athygli og sömuleiðis atvik þegar hann stuggaði við forsætisráðherra Svartfjallalands til þess að verða fremstur á mynd.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, bauð Trump í heimsókn til Bretlands þegar þau hittust í Washington í janúar. Fregnir hafa borist af því að þeirri heimsókn hafi verið aflýst af ótta við mótmæli gegn Trump.
