Skoðun

Annars flokks heilbrigðiskerfi

Smári McCarthy skrifar
Í nýrri grein í Lancet-tímaritinu er dregin upp björt mynd af stöðu íslenska heilbrigðiskerfisins gagnvart öðrum. Röðin er ákveðin á grundvelli gilda sem reiknuð eru út frá ýmsum þáttum og getu heilbrigðiskerfa til að bregðast við ákveðnum sjúkdómum. Gildin eru reiknuð fyrir tímabilið 1990 til 2015 en á tímabilinu fer nánast öllum löndum heimsins fram. Til að mynda fór meðalland í Suðaustur-Asíu úr 38,6 stigum 1990 í 52,1 stig 2015, meðan rík lönd á heimsvísu fóru úr 71,1 stigi að meðaltali í 83,1 stig á tímabilinu. Ísland fór úr 81,9 stigum í 93,6 stig á tímabilinu. Við fyrstu sýn gefur þetta góða mynd af ástandinu en vert er að athuga nokkur atriði.

Í fyrsta lagi hefur hægt nokkuð á framförum Íslands. Aukning á 5 ára tímabili náði mest 2,1 stigi um aldamót en stendur nú í um 0,8 stigum síðan fyrir hrun. Ef við hefðum haldið áfram að bæta heilbrigðiskerfið værum við í fyrsta sæti.

Þá eru öll löndin í 20 efstu sætunum með ríkisrekin heilbrigðiskerfi en draumaland einkarekinnar heilbrigðisþjónustu, Bandaríkin, er í 35. sæti þrátt fyrir gríðarhá laun lækna, góðan tækjabúnað og mikla vísindaþátttöku. Ætla má út frá þessu að með einkavæðingartilburðum sé heilbrigðisráðherra að leita allra leiða til að koma Íslandi neðar á lista Lancet.

Svo má spyrja sig hvort það sé ástæða til að treysta mælingunni. Minnumst þess að fyrir hrun mældist Ísland ítrekað með minnsta spillingu í heimi en þær mælingar byggðust á röngum upplýsingum og mælikvörðum. Mýmörg dæmi eru um að Ísland mælist undarlega hátt á svona listum.

En í rauninni skiptir bara eitt atriði máli: Erum við sátt við stöðuna? Getum við sagt að það sé gott að vera í öðru sæti ef það felur í sér ónýtt húsnæði, viðvarandi starfsmannaskort og streituálagi á heilbrigðisstarfsfólk, sjúklingum liggjandi á göngum spítala og síhækkandi kostnaði sjúklinga?

Sagt er að annað sætið taki sá sem tapaði fyrstur allra. Við getum betur og ættum að fara varlega í fagnaðarlætin.




Skoðun

Sjá meira


×