Körfubolti

Enginn Martin og Charleville-Mezieres fékk skell í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. vísir/bára dröfn
Martin Hermannsson gat ekki spilað með Charleville-Mézières í kvöld þegar liðið lék sinn fyrsta leik í átta liða úrslitum frönsku b-deildarinnar í körfubolta.

Charleville-Mezieres er allt annað lið án Martin og það sást vel í 9 stiga tapi á móti Nantes á heimavelli, 78-87.

Liðin enduðu í fjórða (Charleville-Mezieres) og fimmta sæti (Nantes) deildarinnar. Martin lék með í síðasta leik liðanna og þá vann Charleville tíu stiga sigur á heimavelli Nantes.

Martin meiddist á viðbeini fyrir tveimur vikum og er ekki orðinn góður af þeim meiðslum. Liðið saknaði íslenska landsliðsmannsins mikið í kvöld.

Nantes var fjórtán stigum yfir í hálfleik, 48-34, og 21 stigi yfir fyrir lokaleikhlutann, 67-46.

Charleville-Mezieres byrjaði lokaleikhlutann vel og náði að minna muninn niður í 10 stig með 13-2 spretti en mikið nær komst liðið ekki og gestirnir fögnuð góðum sigri og 1-0 forystu í einvíginu.

William Mensah tók við leikstjórnendastöðunni af Martin en hann var með 11 stig og 6 stoðsendingar í þessum leik. Wilbert Clif Brown var stigahæstu með 28 stig og Mohamed Kone skoraði 16 stig og tók 16 fráköst.

Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í undanúrslitin og næsti leikur er á heimavelli Nantes á sunnudagskvöldið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×