Handbolti

Hreiðar Levý: Hræðsla hjá körfunni í KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hreiðar Levý var í íslenska landsliðinu sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og brons á EM tveimur árum síðar.
Hreiðar Levý var í íslenska landsliðinu sem vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum 2008 og brons á EM tveimur árum síðar. vísir/stefán
Hreiðar Levý Guðmundsson er vonsvikinn yfir því að karlalið KR í handbolta hafi verið lagt niður.

KR vann Víking í undanúrslitum umspils 1. deildar og var þannig með sæti víst í Olís-deildinni á næsta tímabili.

Hreiðar er uppalinn í KR og var búinn að skrifa undir tveggja ára samning við félagið. Það verður hins vegar ekkert af því að hann leiki með uppeldisfélaginu á nýjan leik.

„Þetta var mikill skellur,“ sagði Hreiðar í samtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Akraborginni í dag.

„Það átti að spýta í lófana. Ég, eins og allir, var búinn að hafa samband við fullt af leikmönnum til að við yrðum vel samkeppnishæfir. Svo kemur þetta eins og köld vatnsgusa,“ bætti Hreiðar við.

Margir KR-ingar eru afar ósáttir með ákvörðunina að leggja handboltaliðið niður og Hreiðar er á sama máli. Hann segist ekki kaupa útskýringar um að aðstöðuleysi geri KR ómögulegt að tefla fram liði í efstu deild í handboltanum.

„Það er augljóst að það er ekki vilji til að vera með handbolta þarna. Ég held að allar þessar útskýringar séu ákveðin yfirbreiða. Það er talað um aðstöðuleysi en það ætti að vera hægt að finna út úr því,“ sagði Hreiðar.

„Ég þekki ekki alla söguna en ég held að þetta sé slagur milli deilda. Ef ég ætti að slengja einhverju fram gæti þetta verið hræðsla hjá körfunni um að missa eitthvað.“

Hreiðar segist hafa verið spenntur fyrir því að koma heim og hjálpa til við að byggja handboltann í KR upp.

„Þetta er ömurlegt fyrir félagið og íþróttina sjálfa. Þetta leit vel út og fyrir mína parta myndi þetta bara stækka félagið og gera það betra. Það er dapurt að samherjar innan sama félags geti ekki reynt að styðja hvorn annan,“ sagði Hreiðar sem þarf núna að finna sér nýtt lið.

„Ég býst við að finna mér nýtt lið og það er á byrjunarstigi. Maður er bara að átta sig á hlutunum. Svo þarf ég að klára mín mál með KR-ingunum. Ég er búinn að fá þó nokkuð af símtölum og skilaboðum frá öðrum liðum,“ sagði markvörðurinn öflugi að lokum.


Tengdar fréttir

KR leggur handboltaliðið niður

KR spilar ekki í Olís-deild karla í handbolta á næsta tímabili þrátt fyrir að hafa unnið sér sæti í deildinni nú í vor.

Hreiðar Levy heim í KR

Hreiðar Levy Guðmundsson, fyrrum markvörður íslenska handboltalandsliðsins til margra ára, hefur ákveðið að spila með KR á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×