Handbolti

Andri: Þakka ykkur fyrir að hafa spáð okkur svona slöku gengi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Andri skorar framhá Giedrius Morkunas.
Andri skorar framhá Giedrius Morkunas. vísir/anton
„Þetta er held ég mesta rugl sem ég hef lent í. Þvílíkur draumur að ná klára þennan leik, en ég held að við höfðum átt það skilið,” sagði Andri Þór Helgason, einn af markahæstu mönnum Fram í dag, þegar liðið sló út Íslandsmeistara Hauka.

Eftir sigurinn er Fram komið í undanúrslit, en Andri átti afar góðan leik í dag.

„Þeir jöfnuðu tvisvar alveg í lokin og tryggðu sér þannig framlengingu, en við náðum að loka þessu í vító og áhorfendurnir fengu eitthvað fyrir peninginn.”

Fram var komið í afar góða stöðu undir lok venjulegs leiktíma, en kastaði þeirri forystu frá sér. Þeir höfðu þetta að lokum og Andra er því alveg sama.

„Við eigum það til að vera klaufar, eiginlega bara í flestum leikjum. Við erum búnir að vera klára þessa leiki þar sem þetta hefur verið jafnt.”

„Ef við hefðum haldið betur á spilunum hefðum við getað klárað þetta í lokin, en við hleyptum þeim inn í leikinn. Þetta fór í tvær framlengingar og við unnum svo mér er alveg sama.”

Fyrir tímabilið var litið á Fram sem algjört fallbyssufóður. Þeir höfðu misst marga lykilmenn og Guðmundur Helgi Pálsson tók við liðinu síðla sumars. Árangurinn er sér í lagi magnaður.

„Ég held við séum búnir að troða sokk upp í ansi marga, en ég meina spá er bara spá. Þetta peppaði okkur bara upp. Ég ætla þakka ykkur bara fyrir að hafa spáð okkur svona slöku gengi. Þetta hefur hjálpað okkur mikið.”

Andra líst vel á grannaslaginn sem er framundan í undanúrslitunum, en þar mætir Fram grönnum sínum í Val.

„Það er draumur. Ég hef aldrei verið í svona nágrannaslögum í handboltanum. Þetta er Valur-Fram og ég trúi ekki öðru en það verði fullt bæði í Fram-heimilinu og Valshöllinni. Þetta verður bara sama veislan og þetta er búið að vera,” sagði þessi öflugi vinstri hornamaður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×