Fótbolti

Strákarnir falla um þrjú sæti en eru enn þá langbestir á Norðurlöndum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Enn á toppnum í norðrinu.
Enn á toppnum í norðrinu. vísir/getty
Íslenska landsliðið í fótbolta er í 23. sæti á nýjum styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins sem kom út í morgun. Það fellur um þrjú sæti frá síðasta lista en það var met hjá liðinu þegar það komst í 20. sæti listans.

Ísland missir nýkrýnda Afríkumeistara Egyptalands upp fyrir sig sem fara upp um þrjú sæti og þá er Holland komið aftur upp fyrir íslenska liðið. Ekvador er sæti fyrir ofan strákana okkar og Írland, sem Ísland mætir síðar í mánuðinum, er sæti neðar.

Sem fyrr eru strákarnir okkar langbesta lið Norðurlanda en næsta þjóð á eftir Íslandi er Svíþjóð sem er 22 sætum fyrir neðan íslenska liðið í 45. sæti listans. Danir eru svo í 48. sæti.

Lars Lagerbäck hefur verk að vinna með norska landsliðið en það stendur í stað í 81. sæti, einu sæti á undan Færeyjum. Finnar eru slakastir á Norðurlöndum en þeir sitja í 99. sæti heimslistans.

Engin breyting er á tólf efstu sætunum og halda Argentínumenn því efsta sæti listans á undan Brasilíu, Þýskalandi, Síle og Belgíu.

Allan listann má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×