Erlent

Búast við frekari stuðningi Bandaríkjanna gegn ISIS

Samúel Karl Ólason skrifar
Bandarískir sérsveitarmenn í Sýrlandi.
Bandarískir sérsveitarmenn í Sýrlandi. Vísir/AFP
Sýrlenskir Kúrdar, og arabískir bandamenn þeirra, búast við áframhaldandi stuðningi Bandaríkjanna í baráttu þeirra gegn Íslamska ríkinu. Þá segjast þeir tilbúnir til að berjast gegn Tyrkjum sæki þeir að Raqqa eins og þeir hafa gefið í skyn. Hernaðaryfirvöld í Bandaríkjunum íhuga að senda fleiri hermenn til Sýrlands gegn ISIS.

Ilham Ahmed, einn af leiðtogum Syrian Democratic Forces, SDF, sem eru regnhlífarsamtök fyrir sýrlenska Kúrda (YPG) og uppreisnarhópa Araba, var nýverið í Washington þar sem hún bað nýja ríkisstjórn Donald Trump um aðstoð. Bæði pólitíska- og hernaðarlega.

Hún sagði blaðamönnum Reuters að aðstoð yrði nauðsynleg til að sigra ISIS. Hann sagði bandaríska embættismenn sem hún ræddi við hafa verið jákvæða og jafnvel velt upp möguleikanum á aukinni aðstoð.

Sýrlenskir Kúrdar hafa myndað sjálfstjórnarsvæði í norðurhluta Sýrlands og hafa tekið stór svæði af Íslamska ríkinu.

SDF vinnur nú að því að umkringja Raqqa, höfuðvígi ISIS, með stuðningi sérsveita Bandaríkjanna og loftárásum.

Stuðningurinn veldur spennu

Stuðningur Bandaríkjanna við sýrlenska Kúrda hafa myndað spennu á milli Bandaríkjanna og Tyrklands sem líta á YPG sem systursamtök Verkamannaflokks Kúrda í Tyrklandi, sem talin eru vera hryðjuverkasamtök. Þeir hafa staðið fyrir uppreisn Kúrda í Tyrklandi í um 30 ár.

Tyrkir hafa gert innrás inn í Sýrland til stuðnings uppreisnarhópa og í vikunni var gefið út að markmið aðgerða þeirra í Tyrklandi væri að skapa öruggt svæði við landamærin með því að reka ISIS-liða og Kúrda á brott frá landamærunum.

Tyrkir hafa meðal annars komið því í gegn að litið hefur verið framhjá Kúrdum í friðarviðræðum vegna Sýrlands, jafnvel þó þeir stjórni stórum hluta landsins.

Ahmed segir ótækt að Tyrkjum verði hleypt nærri svæðum sem SDF hefur rekið ISIS-liða frá og byggt upp stöðugleika á.

Skoða fjölgun hermanna

Hernaðaryfirvöld í Pentagon í Bandaríkjunum íhuga nú möguleikan á því að fjölga hermönnum í Sýrlandi. Það er ein af mörgum hugmyndum sem verið er að skoða en engin hugmynd hefur verið kynnt fyrir Donald Trump á þessari stundu.

Meðal þess sem verið er að skoða er að senda hefðbundna hermenn. Ekki bara sérsveitarmenn.


Tengdar fréttir

Beina sjónum sínum að Raqqa

Herir Kúrda og Araba hyggjast nú sækja að sýrlensku borginni Raqqa sem kölluð hefur verið höfuðborg hryðjuverkasamtakanna Daish, sem kenna sig við íslamskt ríki.

Kúrdar sækjast eftir loftvarnarvopnum

Yfirvöld í Rússlandi segja ákvörðun Bandaríkjanna að draga úr takmörkunum á vopnaveitingum til ýmissa hópa í Sýrlandi vera beina ógn gegn flugmönnum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×