Körfubolti

Körfuboltamaður missti augað í miðjum leik: „Ég gat enn þá séð með auganu“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Akil Mitchell leiddur af velli með augað úti á kinn.
Akil Mitchell leiddur af velli með augað úti á kinn. vísir/getty
Bandarískur körfuboltamaður að nafni Akil Mitchell er á batavegi og líður vel eftir að annað auga hans hrökk úr augntóftinni í miðjum leik í gær. BBC greinir frá.

Mitchell spilar með New Zealand Breakers í Nýja-Sjálandi en hann varð fyrir því óláni að fá fingur mótherja síns í augað með þeim afleiðingum að augað hrökk úr augntóftinni. Bandaríkjamaðurinn féll til jarðar og hélt um andlitið áður en honum var komið á sjúkrahús.

„Ég fann fyrir auganum á hlið andlitsins. Ég gat enn þá séð út úr auganu. Ég man að ég hugsaði: „Þetta er frekar slæmt.“ Ég fann fyrir því að augað var ekki á réttum stað og því leið mér ekki vel,“ segir Mitchell í viðtali við nýsjálenska fjölmiðla.

Mitchell segist muna eftir viðbrögðum áhorfenda og hinna leikmannanna þegar atvikið átti sér stað. Hann hélt að hann myndi aldrei sjá aftur.

„Þegar ég kom í sjúkrabílinn var mér gefið verkjalyf og augndropar og svo fann ég fyrir því að auganum var rennt aftur á sinn stað. Það var skrítin tilfinning. Það var svo gott að geta blikkað augunum aftur sem er alveg geðveikt,“ segir Mitchell.

Bandaríkjamaðurinn sló á léttu strengina á Twitter-síðu sinni þar sem hann setti emoji af tveimur augum og spurði: „Of snemmt?“ Hann sagðist sjá vel en væri á leið í frekari rannsóknir.

Búist er við að Akil Mitchell nái sér að fullu og byrji að spila aftur fljótlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×