Körfubolti

Martin: Passaði mig á að velja lið þar sem ég fengi að blómstra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Martin Hermannssyni hefur gengið allt í haginn síðan hann gekk í raðir franska körfuboltaliðsins Charleville-Mézières.

Martin hefur skorað 18,5 stig að meðaltali í leik í vetur og er næststigahæstur í frönsku B-deildinni. Þá er landsliðsmaðurinn einnig með 4,1 frákast og 6,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Þetta hefur gengið mjög vel, bæði hjá mér persónulega og hjá liðinu sjálfu. Maður finnur það hvað allir í bænum eru spenntir fyrir þessu,“ sagði Martin í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Gaupi hitti Martin Aron í Hörpu í gærkvöldi þar sem Íþróttamaður ársins 2016 var útnefndur. Martin var í fyrsta sinn á meðal 10 efstu í kjörinu.

Eftir tvö tímabil hjá LIU háskólanum í Brooklyn söðlaði Martin um í sumar og samdi við Charleville-Mézières. Hann segir tvennt ólíkt að spila í bandaríska háskólaboltanum og svo í sterkri atvinnumannadeild.

„Þarna er maður að spila á móti atvinnumönnum, mönnum sem fá borgað fyrir að spila og eru eldri og stærri og sterkari en ég, í staðinn fyrir að vera í háskólaboltanum þar sem leikmenn eru yngri og ekki jafn reyndir. Þetta er virkilega krefjandi og allt öðruvísi körfubolti,“ sagði Martin sem er í stóru hlutverki hjá Charleville-Mézières sem er í 2. sæti deildarinnar.

„Ég passaði mig á því að velja lið sem þurfti á mínum kröftum að halda og leyfði mér að spila minn leik og blómstra,“ sagði Martin sem hefur trú á því að Charleville-Mézières geti unnið sér sæti í A-deildinni fyrir næsta tímabil.

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×