Körfubolti

Kári setti persónulegt met í stoðsendingum í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Jónsson og "Hafnarfjörður“.
Kári Jónsson og "Hafnarfjörður“. Mynd/@DrexelMBB
Kári Jónsson heldur áfram að spila vel með Drexel í bandaríska háskólakörfuboltanum en hann næstum því tvöfaldaði stoðsendingar sínar á tímabilinu í sigurleik í nótt.

Kári var með 17 stig og 8 stoðsendingar á 33 mínútum í 91-74 sigri Drexel á Quinnipiac.

Kári var „bara“ búin að gefa 16 stoðsendingar í fyrstu ellefu leikjum sínum en fann félaga sína vel í leiknum í nótt. Kári hafði mest áður gefið fimm stoðsendingar í einum leik.

Kári hitti líka úr 5 af 8 þriggja stiga skotum sínum en þetta var þriðji leikur hans í vetur þar sem hann skorað fimm þrista eða fleiri. Enginn annar leikmaður Drexel-liðsins hefur náð því.

Það sem gerir þennan átta stoðsendinga leik hjá Kára enn merkilegri er sú staðreynd að hann tapaði bara einum bolta í leiknum og sá tapaði bolti kom til vegna sóknarvillu.

Kári hefur leikið 12 leiki með Drexel og hann er með 10,4 stig, 2,5 fráköst og 2,0 stoðsendingar að meðaltali í þeim. Kári hefur skorað 31 þrist á tímabilinu og hitt úr 43 prósent skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna.

Drexel-liðið vann tvo síðustu leiki sína fyrir jól en liðið hefur alls unnið 6 af 12 leikjum sínum á tímabilinu. Fjórir af þessum sigrum hafa komið í síðustu sex leikjum.


Tengdar fréttir

Kári stigahæstur í sigri Drexel

Kári Jónsson, bakvörður Drexel háskólans í bandarísku háskóladeildinni í körfubolta, var stigahæstur í naumum 78-72 sigri á High Point á útivelli í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×