Erlent

Trump segir afsakanir Demókrata neyðarlegar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. Nordicphotos/Getty
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna. Nordicphotos/Getty
Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, hafnar því mati Leyniþjónustu Bandaríkjanna (CIA) að rússneskir tölvuþrjótar hafi reynt að hafa áhrif á kosningarnar, honum í hag. Þetta kom fram í viðtali hans við Chris Wallace á sjónvarpsstöðinni Fox News í gær.

Þá sagði hann einnig að Demókratar væru að reyna að gera sem mest úr málinu vegna þess að þeir skömmuðust sín fyrir stórt tap í kosningunum.

„Mér finnst þetta fáránlegt. Ég held að þetta sé enn ein afsökunin. Ég trúi þessu ekki,“ sagði forsetinn verðandi í viðtalinu.

CIA tilkynnti fjölmiðlum um mat sitt á föstudaginn en rússnesk yfirvöld hafa endurtekið hafnað ásökunum Bandaríkjamanna.

Trump viðurkenndi að það væri mögulegt að Rússar hafi staðið að baki tölvuárásum en bætti þó við: „Þeir hafa ekki hugmynd um hvort þetta séu Rússar, Kínverjar eða einhver sem situr á rúminu heima hjá sér.“

Þá tjáði Trump sig einnig um olíujöfurinn Rex Tillerson, sem talið er að verði utanríkisráðherra hans. „Hann er leikmaður í heimsklassa,“ sagði Trump um Tillerson, hinn 64 ára forstjóra ExxonMobil.

Enn fremur tjáði hann sig um þá umdeildu ákvörðun að taka við símtali frá Tsai Ing-wen, forseta Taívans. Bandaríkin hafa til þessa fylgt stefnu um eitt og sameinað Kína en Taívan, sem opinberlega heitir Lýðveldið Kína, lítur á sig sem sjálfstætt ríki.

Sagði Trump að hann myndi ekki fylgja sömu stefnu og forverar sínir nema Kínverjar samþykktu breytingar á viðskiptum milli ríkjanna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×