Erlent

Kúbumenn órólegir vegna Trump

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Obama og Raul Castro takast í hendur
Obama og Raul Castro takast í hendur Vísir/EPA
Eftir fráfall Fidel Castro í gær hefur mikill óróleiki seytlað um sig í Kúbu sérstaklega í ljósi þess að nýr forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, mun taka við stjórnartaumunum 20. janúar á næsta ári. Kúbumenn hafa áhyggjur af því að tengslin milli landanna tveggja muni stirðna á ný.

Haft er eftir einum Kúbumanni í frétt BBC þar sem hann segir: „Það verður líklega minna um túrista. Það mun hafa áhrif á efnahaginn og alla Kúbverja.“

Grunnur að betri samskiptum

Tengslin milli Kúbu og Bandaríkjanna hafa, eins og mörgum er kunnugt, verið stirð undanfarna áratugi. Sögulegar sættir tókust milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Kúbu í árslok 2014 þar sem samið var um unnið skyldi að bættum samskiptum ríkjanna. Viðskiptabann og diplómatískur fjandskapur hafði þá ríkt milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Kúbu í um hálfa öld. 

Barack Obama Bandaríkjaforseti fór í opinbera heimsókn þangað í mars á þessu ári. Fram af því hafði enginn bandarískur forseti heimsótt landið frá ári byltingarinnar 1959 þegar Fidel Castro og stuðningsmenn hans steyptu herstjóranum Fulgencio Batista af stóli en sá hafði mikinn stuðning bandarískra stjórnvalda. Sú bylting markaði þáttaskil í samskiptum þessara tveggja ríkja og settu Bandaríkin viðskiptabann á Kúbu og slitu um leið stjórnmálatengslum við landið.

Trump er ólíkindatól

Donald Trump hefur sagt að í hans valdatíð verði kúbanska sendiráðinu í Flórída lokað og lagði hann sig fram við að sannfæra Kúbumenn, sem búsettir eru í Flórída, að honum væri mikið í nöp við þá Castro-bræður. Viðbrögð Trump við fráfalli Castro voru meðal annars að kalla hann „miskunnarlausan einræðisherra.“ Kúbumenn eru því óvissir hvernig Trump muni taka á þessum málum.

Misjöfn viðbrögð

Fráfall Fidel Castro hefur fengið misjöfn viðbrögð út um allan heim. Margir hafa syrgt leiðtogann og hefur stjórnmálafólk víðsvegar að sent frá sér yfirlýsingar vegna þessa. Hins vegar hafa ekki allir syrgt þennan umdeilda leiðtoga eins og sjá mátti í fréttum frá Flórída í gær þegar Kúbumenn búsettir þar þustu út á götur borgarinnar og fögnuðu ákaft.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×