Íslenski boltinn

Gunnar Már: Hann dæmir hvort sem er í næsta leik og ekkert mál

Gunnar Már í leik með Fjölni fyrr í sumar.
Gunnar Már í leik með Fjölni fyrr í sumar. vísir/vilhelm
Gunnar Már Guðmundsson leikmaður Fjölnis var niðurlútur eftir tapið gegn Stjörnunni á heimavelli í dag. Hann ósáttur með Þorvald Árnason dómara leiksins og vildi meina að Fjölnismenn hefðu átt að fá þrjár vítaspyrnur í leiknum.

„Mér fannst við spila ágætlega en það er víst ekki nóg, við verðum að skora mörk. Það verður gaman að kíkja á nokkur atriði í leiknum og mér fannst ekkert falla með okkur í dag. Þetta er helvíti sárt,“ sagði Gunnar Már þegar Vísir náði tali af honum eftir leikinn í dag.

Fjölnismenn vildu fá vítaspyrnu í seinni hálfleik þegar Hörður Árnason fékk boltann í höndina inni í teig heimamanna.

„Í tvígang fá þeir boltann í höndina. Í fyrri hálfleik er skotið og boltinn á leið í átt að marki og hann fær boltann í höndina og stoppar hann. Í seinni hálfleik er hann á leið út með boltann og með höndina langt frá líkamanum og fær boltann í hana.“

„Í þriðja skiptið þegar Tóti er á undan Baldri í boltann og hann þrumar undir hælinn á honum. Af hverju er þetta ekki víti? Þetta væri aukaspyrna úti á velli. Þetta óþolandi hvað dómarar eru, jæja ég ætla ekki að segja það. Ég vona að þeir kíki á þetta en hann dæmir hvort sem er bara næsta leik og ekkert mál,“ bætti Gunnar við.

Fjölnismenn eru komnir niður í 5.sæti deildarinnar eftir úrslit dagsins og þurfa að treysta á úrslit í öðrum leikjum ætli þeir sér Evrópusæti á næsta ári.

„Ég met það þannig að við séum búnir að missa þetta úr okkar höndum. Við erum bara búnir að klúðra þessu. Að sjálfsögðu förum við í Blikaleikinn til þess að gera okkar besta en þegar maður þarf að treysta á úrslit hjá öðrum þá er það vonlaust,“ sagði Gunnar Már að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×