Tyrkir skutu á vígamenn í bænum Jarablus, sem er á landamærum Sýrlands og Tyrklands og á stöður Kúrda norður af borginni Manjib, sem þeir frelsuðu nýverið úr höndum ISIS. Kúrdar hafa sótt hart fram gegn ISIS í norðanverðu Sýrlandi og lagt undir sig stór svæði með aðstoð Bandaríkjanna og annarra.
Tyrkir líta á Kúrda í Sýrlandi, YPG, sem framlengingu af Verkamannaflokki Kúrda, PKK, sem staðið hefur í uppreisn í Tyrklandi um árabil. Kúrdar í bæði Írak og Sýrlandi hafa hins vegar sagt að með árásum sínum gegn sér hafi Tyrkir veitt ISIS og al-Qaeda beinan stuðning.
ISIS hefur þurft að gefa verulega eftir bæði í Sýrlandi og í Írak. Í Sýrlandi er það helst hópurinn SDF sem hefur staðið sig hvað best gegn ISIS, en hann er skipaður af Kúrdum og Aröbum og er studdur af bandarískum loftárásum og sérsveitum.
Á myndinni má sjá svæðið sem ISIS hefur tapað. Gula svæðið táknar það svæði og í norðanverðu Sýrlandi má sjá hve stórt svæði það er sem SDF hefur tekið.