Erlent

Tyrkir ráðast gegn ISIS og Kúrdum í Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Tyrkneski herinn hefur gert stórskotaárásir gegn stöðum vígamanna Íslamska ríkisins og Kúrda í norðanverðu Sýrlandi. Ríkistjórn Tyrklands segir að vígamenn ISIS hafi skotið yfir landamærin og þeirri skothríð hafi verið svarað, en talið er að stórskotaárás Tyrkja sé til undirbúnings fyrir sókn uppreisnarhópa.

Tyrkir skutu á vígamenn í bænum Jarablus, sem er á landamærum Sýrlands og Tyrklands og á stöður Kúrda norður af borginni Manjib, sem þeir frelsuðu nýverið úr höndum ISIS. Kúrdar hafa sótt hart fram gegn ISIS í norðanverðu Sýrlandi og lagt undir sig stór svæði með aðstoð Bandaríkjanna og annarra.

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði í gær að nauðsynlegt væri að hreinsa landamæri ríkjanna tveggja af vígamönnum ISIS. Tyrkir eru hins vegar ekki ánægðir með að Kúrdar séu að taka við.

Tyrkir líta á Kúrda í Sýrlandi, YPG, sem framlengingu af Verkamannaflokki Kúrda, PKK, sem staðið hefur í uppreisn í Tyrklandi um árabil. Kúrdar í bæði Írak og Sýrlandi hafa hins vegar sagt að með árásum sínum gegn sér hafi Tyrkir veitt ISIS og al-Qaeda beinan stuðning.

ISIS hefur þurft að gefa verulega eftir bæði í Sýrlandi og í Írak. Í Sýrlandi er það helst hópurinn SDF sem hefur staðið sig hvað best gegn ISIS, en hann er skipaður af Kúrdum og Aröbum og er studdur af bandarískum loftárásum og sérsveitum.

Á myndinni má sjá svæðið sem ISIS hefur tapað. Gula svæðið táknar það svæði og í norðanverðu Sýrlandi má sjá hve stórt svæði það er sem SDF hefur tekið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×