Guðmundur Guðmundsson, þjálfari danska landsliðsins, gat auðveldlega sett sig í fótspor slóvenska landsliðsins sem datt í kvöld út úr átta liða úrslitum á Ólympíuleikunum í Ríó.
Slóvenska liðið var búið að spila mjög vel á Ólympíuleikunum í Ríó og vinna alla leiki sína nema þann á móti Evrópumeisturum Þýskalands.
Sjá einnig:Tveir íslenskir þjálfarar í undanúrslitunum
Guðmundur var hinsvegar búinn að lesa Slóvenana í kvöld og Danir unnu öruggan 37-30 og tryggðu sér sæti í undanúrslitunum sem fara fram á föstudaginn.
Fyrir fjórum árum vann íslenska landsliðið alla leiki sína í riðlinum en tapaði síðan á móti Ungverjum í átta liða úrslitum eftir tvíframlengdan leik.
Sjá einnig:Guðmundur: Okkar langbesti leikur á leikunum til þessa
„Slóvenarnir eru búnir að vera frábærir allan tímann á leikunum og þeir voru brotnir," sagði Guðmundur Guðmundsson eftir leikinn.
„Við upplifðum það að spila frábærlega á leikunum 2012 en detta svo út. Ég veit alveg hvernig tilfinnning þetta er. Þetta er ekki góð tilfinning. Þetta er hræðileg tilfinning. Ég hálfvorkenni þeim, " sagði Guðmundur.
Leikurinn á móti Ungverjum á ÓL 2012 var einmitt síðasti leikur íslenska landsliðsins undir stjórn Guðmundar Guðmundssonar.

