Artur Yusupov er 26 ára gamall og leikur með liði Zenit Sankti Pétursborg í heimalandinu. Hann kemur inn í rússneska hópinn fyrir Igor Denisov.
Igor Denisov tognaði aftan í læri í 1-1 jafntefli Rússa og Serba í vináttulandsleik í Mónakó á sunnudaginn. Denisov er 32 ára gamall og á að baki 54 landsleiki eða 52 fleiri en umræddur Artur Yusupov. Yusupov hefur spilað tvo landsleiki og þeir voru báðir vináttulandsleikir.
Hvort sem það var tilviljun eða ekki þá var Artur Yusupov í sumarfríi í Mónakó og gisti á sama hóteli og rússneska liðið sem var þar í æfingabúðum.
„Svona gerðist þetta nákvæmlega," viðurkenndi Artur Yusupov í samtali við Guardian. „Ég er búinn að vera í fríi í fjórtán daga og auðvitað er ég aðeins dottinn úr formi. Ég veit því ekki alveg hvernig ástandið verður á mér," sagði Yusupov.
Artur Yusupov spilaði 23 leiki á sínu fyrsta tímabili með Zenit Sankti Pétursborg en hann lék áður með Dynamo Moskvu í fjögur tímabil þar á undan.
„Ég ætlaði að fljúga aftur heim til Moskvu í dag (í gær). Ég var ekki einu sinni með fótboltaskóna með mér og engin föt sem voru til þess fallin að spila fótbolta í," sagði Artur Yusupov.
Artur Yusupov þurfti meira að fá skó lánaða hjá liðsfélaga sínum í landsliðinu þegar rússneska liðið æfði í gær.
Fyrsti leikur Rússa á EM í Frakklandi verður á móti Englendingum á laugardaginn en Rússar eru líka í riðli með Wales og Slóvakíu.
Artur Yusupov is expected to replace injured Igor Denisov in Russia's #EURO2016 squad. pic.twitter.com/JszPESFQF5
— UEFA EURO 2016 (@UEFAEURO) June 6, 2016