Körfubolti

Leifur og Sigmundur: Það leikur sér enginn að því að dæma tæknivillu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Ég hef fengið mjög mikil viðbrögð og öll jákvæð. Þetta kom í raun miklu betur út en ég þorði að vona,“ segir Sigmundur Már Herbertsson, körfuboltadómari, um leikinn fræga þar sem hann og kollegar hans voru með hljóðnema á sér í Dominos-deild karla.

Sigmundur, Leifur Sigfinnur Garðarsson og Björgvin Rúnarsson samþykktur að vera með hljóðnema á sér í leik Keflavíkur og Tindastós í Dominos-deildinni á dögunum. Þjálfarar liðanna voru einnig með hljóðnema og úr varð mjög skemmtileg innsýn inn í heim körfuboltadómaranna.

Þeir segjst aðeins hafa fundið fyrir því að þeir væru með hljóðnema á sér til að byrja með en fljótt gleymdist það í hita leiksins.

„Maður fékk eitthvað tæki á brækunar sem var svo tengt á svipaðan stað og flautan hangir hvort sem er. Maður var búinn að gleyma þessu þegar leikurinn var kominn í gang. Ég held að þetta hafi verið mjög skemmtilegt,“ segir Leifur og Sigmundur tekur undir það:

„Í upphitun fann maður fyrir þessu en svo var eins og þetta væri ekki á staðnum því maður getur aldrei leikið neinn annan en maður er. Ég vissi ekki af þessu og þjálfararnir voru líka eins og vanalega.“

Eins og sjá má í innslaginu eru dómararnir í stöðugum samskiptum við leikmenn. Sigmundur var nú líka í því að halda mönnum á tánum í leiknum eins og sást þegar hann róaði Myron Dempsey, leikmann Tindastóls, á vítalínunni.

„Það eru miklar pælingar í dómgæslunni og í henni eru samskipti allt. Þetta byggir á samskiptum og við erum í samskiptum við leikmenn og þjálfara og reynum að koma í veg fyrir að menn brjóti af sér. Það er best að þurfa ekki að dæma neitt,“ segir Leifur og Sigmundur bætir við:

„Stór hluti af körfuboltadómgæslu og allri dómgæslu eru samskipti. Þau verða að vera góð og maður verður að vanda sig. Í undirbúningi fyrir leik verður maður að undirbúa sig fyrir hvern maður er að fara að tala við. Þetta þarf að vanda mjög vel og þetta tókst ágætlega í þessum leik.“

Leifur dæmdi tæknivillu á Val Orra Valsson, leikmann Keflavíkur, í leiknum sem hvorki hann né þjálfari Keflavíkur, Sigurður Ingimundarson, voru sérstaklega ánægðir með.

„Við gleymum því stundum að tæknivilla er eins nánast eins og gult spjald. Þetta er bara eitt vítaskot og svo heldur leikurinn áfram. Það leikur sér enginn að því að gefa einhverjar tæknivillur. Þetta er nú vanalega uppsafnað. Menn þurfa að sýna háttvísi, en við reynum að hjálpa leikmönnum svo þeir brjóti ekki af sér,“ segir Leifur Garðarsson.

Allt viðtalið við dómarana má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×