Innlent

Þjóðardýrgripirnir faldir ofan í geymslu

Una Sighvatsdóttir skrifar
Áætluð verklok á Húsi íslenskra fræða eru eftir einn mánuð, samkvæmt skilti sem reist var þegar grunnurinn var tekinn árið 2013. Nú þremur árum síðar hefur ekkert gerst og málið er enn fast á Alþingi.

Það má heita kaldhæðnislegt að handan við hornið rís nú nýtt hús fyrir Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, á meðan ekkert bólar á húsi íslenskunnar. Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, segir að glataður tími þýði glötuð tækifæri fyrir íslenska menningu og tungu.

„Af því að í húsinu verður miðstöð íslenskunnar í heiminum eiginlega og þar verður til dæmis handritunum búinn þetta glæsilega sýningarrými sem okkur vantar og höfum ekki í dag. Nú streyma til landsins ferðamenn alls staðar að og vilja auðvitað sjá okkar helstu þjóðardýrgripi eins og við viljum þegar við förum til Aþenu eða Kaíró, en nú eru þessir gripir bara í geymslu," segir Guðrún.

Svona á Hús íslenskra fræða að líta út fullgert samkvæmt teikningum, en upphaflega voru áætluð verklok í mars 2016. Grunnurinn stendur hinsvegar enn tómur.
Þegar Danir afhentu handritin fyrir 45 árum var þeim búin geymsla í Árnagarði, en þar var ekki gert ráð fyrir sýningaraðstöðu fyrir almenning.

„Nú á dögum viljum við auðvitað miðla handritunum. Þau eru komin á heimsminjaskrá UNESCO, og þetta er heimsarfur, þetta er ekki bara okkar einkamál. Þannig að okkur ber skylda til að miðla þeim til allra þeirra sem hafa áhuga á og það viljum við og brennum í skinninu að fá að gera það."

Tillaga forsætisráðherra, um að húsið verði klárað fyrir hundrað ára afmæli fullveldis 1918, hefur nú beðið afgreiðslu ríkisstjórnarflokkanna í tæpt ár. Á meðan er algjör biðstaða í húsgrunninum sem gárungarnir nefna Holu íslenskra fræða, en um hana orti Bjarki Karlsson svo frægt varð:



Híbýli vegleg úr holunni áttu að rísa

horfinna kynslóða bergmáli að miðla og lýsa,

horfinn er vélagnýr, hljótt er í ríkinu þvísa,

heyri ég burðarjálk andlegrar stöðnunar frýsa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×