Körfubolti

Tindastóll klárar tímabilið með tvo Kana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gurley í leik með UMass árið 2007.
Gurley í leik með UMass árið 2007. Vísir/Getty
Anthony Isaiah Gurley er genginn til liðs við Tindastól og verður því annar Bandaríkjamaðurinn í liðinu en fyrir var Myron Dempsey.

Dempsey gekk aftur til liðs við Tindastól í lok janúar eftir að félagið ákvað að rifta samningi Jerome Hill, sem gekk skömmu síðar til liðs við Keflavík.

Sjá einnig: Dempsey kominn aftur á Krókinn

Dempsey og Hill spila báðir sem miðherjar en Gurley er bakvörður sem spilaði síðast í Kanada en hefur einnig spilað í efstu deild í Ungverjalandi og Ísrael, sem og B-deildinni í Frakklandi. Hann spilaði með háskólaliði University of Massachusetts frá 2006 til 2011 þar sem hann var í stóru hlutverki.

Íslenskum félögum er frjálst að semja við eins marga erlenda leikmenn og þau kjósa en þau geta þó verið með einn erlendan leikmann inni á vellinum hverju sinni. Þeir Dempsey og Gurley koma því til með að deila mínútum í hverjum leik.

Kári Marísson, aðstoðarþjálfari Tindastóls, staðfesti í samtali við Vísi að nýi leikmaðurinn hafi komið til landsins í morgun og að hann verði með í hópnum þegar Tindastóll mætir Njarðvík á heimavelli í kvöld.

Gurley spilaði síðast með Monton Miracles í Kanada en spilaði aðeins einn leik þar. Hann hóf tímabilið í Frakklandi þar sem ahnn skoraði 6,4 stig að meðaltali í fimm leikjum með Le Portel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×