Körfubolti

„Moby Dick“ á sakaskrá og kemur ekki til Njarðvíkur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Teitur Örlygsson og Friðrik Ingi Rúnarsson þurfa að finna sér nýjan Kana.
Teitur Örlygsson og Friðrik Ingi Rúnarsson þurfa að finna sér nýjan Kana. vísir/vilhelm
Njarðvík verður án Kana í kvöld þegar liðið heimsækir KR í átta liða úrslitum Powerade-bikars karla í körfubolta.

Michael Craig, Bandaríkjamaðurinn sem Njarðvík var búið að ná samningum við, fær ekki atvinnuleyfi hér á landi vegna þess að hann er á sakaskrá.

Teitur Örlygsson, aðstoðarþjálfari Njarðvíkur, segir í viðtali við karfan.is að félagið leiti nú logandi ljósi að öðrum Bandaríkjamanni.

Njarðvík hóf tímabilið með Marquise Simmons sem var látinn fara eftir níundu umferð deildarinnar. Kanalausir unnu Njarðvíkingar síðustu tvo leikina fyrir jólafrí en töpuðu svo afar óvænt fyrir Hetti í tólftu umferðinni.

Craig, sem fékk viðurnefnið „Moby Dick“ hjá formanni körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur vegnar stærðar sinnar, átti að hjálpa Ljónunum í baráttunni undir körfunni en nú er ljóst að hann kemur ekki til landsins.

Leikur KR og Njarðvíkur hefst klukkan 19.15 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×