Íslenski boltinn

Víkingar unnu KR-inga sem enduðu níu inn á vellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar unnu dramatískan sigur á KR í kvöld.
Víkingar unnu dramatískan sigur á KR í kvöld. Vísir/Stefán
Víkingur vann 3-2 sigur á KR í Reykjavíkurmóti karla í fótbolta í Egilshöllinni í kvöld en sigurmark Víkinga kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma leiksins.

Ívar Jónsson tryggði Víkingum sigurinn með marki á fjórðu mínútu í uppbótartíma en Sindri Snær Jensson, markvörður fékk þá dæmt á sig víti og fékk að auki rautt spjald þegar hann felldi Víkinginn Andri Rúnar Bjarnason.

Ívar Jónsson skoraði tvö af þremur mörkum Víkingsliðsins í leiknum en fyrra markið hans frábært þar sem hann skoraði með geggjuðu skoti af um 35 metra færi.

Pálmi Rafn Pálmason kom KR í 1-0 strax á 9. mínútu leiksins en Ívar jafnaði á 41. mínútu.

KR-ingurinn Gunnar Þór Gunnarsson fékk rautt spjald fyrir brot á Viktor Bjarka Arnarssyni sem var að sleppa í gegn á 50. mínútu leiksins.

Stefán Þór Pálsson kom Víkingum yfir ellefu mínútum eftir rauða spjaldið en Aron Bjarki Jósepsson jafnaði fyrir tíu KR-inga með marki úr vítaspyrnu átta mínútum fyrir leikslok.

Þannig var staðan þar til að Víkingar fengu vítaspyrnu á fjórðu mínútu uppbótartímans og Ívar tryggði Víkingum öll þrjú stigin.

Víkingar hafa fjögur stig eftir fyrstu tvo leiki sína en þetta var fyrstu leikur KR-inga á Reykjavíkurmótinu í ár. Víkingar skoruðu einnig þrjú mörk á móti ÍR en þá dugði það bara til jafnteflis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×