Skoðun

Er rétt að tefla börnum fram í fjölmiðlum?

Þóra Jónsdóttir skrifar

Flestum foreldrum þykja börnin sín vera óaðskiljanlegur hluti af lífinu. Það hlýtur að teljast jákvætt því yfirleitt er velferð barna foreldrum þeirra efst í huga og þeir vilja börnum sínum auðvitað allt hið besta.

Öðru hverju birtast viðtöl við fólk sem deilir reynslusögum úr lífi sínu með almenningi, sem ýmist lýsa jákvæðri upplifun eða erfiðri lífsreynslu. Í einhverjum tilfellum er börnum þeirra sem segja söguna fléttað inn í frásögnina eða eru beinlínis frásagnarefnið sjálft. Sama á sér stað á samfélagsmiðlum. Oftast er það engum til skaða en stundum er ástæða til að hafa áhyggjur af því að barni geti orðið meint af eða að það geti verið óþægilegt fyrir barnið til framtíðar að vera blandað í frásögn foreldra.

Samkvæmt Barnasáttmálanum eiga börn rétt á friðhelgi einkalífs og þau eiga rétt á að tjá sig um mál sem þau varða, í samræmi við aldur sinn og þroska. Börn eiga því sjálfstæðan rétt til að hafa áhrif á það hvort um þau birtist umfjöllun í fjölmiðlum. Hafi þau ekki þroska til að leggja mat á það sjálf eiga þau að njóta verndar gegn því að vera teflt fram í fjölmiðlum. Það sem birtist á netinu, verður þar um ókomna tíð. Foreldrar þurfa að spyrja sjálfa sig að því hvort það hafi áhrif á líf barna þeirra að þeir segi sögur af lífi þeirra. Þeir þurfa að spyrja börn sín að því hvort þau vilji að umfjöllun um þau og jafnvel myndir af þeim, birtist í fjölmiðlum og lifi á netinu um ókomna tíð.

Með fjölmiðlaumfjöllun um börn taka foreldrar og fjölmiðlar ákvarðanir sem geta haft áhrif á líf barna, í nútíð og í framtíð, til góðs eða ills.

Barnaheill – Save the Children á Íslandi vinna að bættum hag barna á Íslandi og vilja vekja athygli á rétti barna til að hafa áhrif á eigin líf eins og Barnasáttmálinn kveður á um. Okkur ber öllum að taka ákvarðanir í samræmi við það sem er barni fyrir bestu. Það á við í hinu víðasta samhengi. Það er afar mikilvægt að við virðum einkalíf barna okkar og tökum ákvarðanir með það fyrir augum hvort umfjöllun í fjölmiðlum sé barni okkar fyrir bestu, ekki bara í dag heldur til framtíðar.




Skoðun

Sjá meira


×