Skoðun

Öfgar geta af sér öfgar

Starri Reynisson skrifar

Hér á landi, líkt og í öðrum löndum í Evrópu, er hópur fólks sem er að berjast fyrir því að framin verði kerfisbundin mannréttindabrot og ákveðnum minnihlutahóp verði mismunað vegna þess hverrar trúar hann er. Eflaust er þetta upp til hópa ágætis fólk sem er einfaldlega mjög afvegaleitt og áttar sig sennilega ekki á því hversu viðbjóðslegar og hættulegar skoðanir þess eru. Auðvitað er þessu fólki frjálst að koma sínum skoðunum á framfæri, en óneitanlega væri heimurinn betri staður ef færri deildu þessum skoðunum.

Sannleikurinn er einfaldlega sá að það er ekki hægt að setja alla múslima undir sama hatt og gera ráð fyrir því að þetta séu allt hryðjuverkamenn. Það að ætla að hafa sérstakt eftirlit með múslimum á þessum forsendum er álíka fáránlegt og að ætla að hafa sérstakt eftirlit með kaþólskum prestum á þeim forsendum að þeir séu allir barnaníðingar. Langflestir múslimar eru bara ósköp eðlilegt og gott fólk, öfgamennirnir eru aðeins hávær minnihluti og tala ekki fyrir alla múslima neitt frekar en t.d. Westboro Baptist Church talar fyrir alla sem eru kristnir, Ku Klux Klan talar fyrir alla hægrimenn, já eða bara forstöðumenn Facebook-síðunnar „Mótmælum mosku á Íslandi“ fyrir alla Íslendinga.

Öfgar geta af sér öfgar, og það virkar í báðar áttir. Hryðjuverk á borð við árásina í París gera fátt annað en að gera öfgaþjóðernissinna enn öfgafyllri, og ummæli og aðgerðir þessara þjóðernissinna gera ekkert nema skvetta bensíni á eldinn hjá öfgatrúuðum múslimum. Þetta er þróun sem allt gott og vel meinandi fólk ætti að leggjast á eitt við að sporna gegn.

Það er einfaldlega þannig að ef við viðurkennum að skoðanir sem byggjast á fordómum, mismunun og mannréttindabrotum eigi rétt á sér erum við um leið að segja að fordómar, mismunun og mannréttindabrot séu á einhvern hátt réttlætanlegir hlutir, sem þeir eru alls ekki.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×