Körfubolti

Tímamótaleikur hjá Sveinbirni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveinbjörn Claessen í leik með ÍR í vetur.
Sveinbjörn Claessen í leik með ÍR í vetur. Fréttablaðið/Ernir
Sveinbjörn Claessen, fyrirliði ÍR-inga, spilar tímamótaleik í kvöld þegar ÍR-ingar heimsækja Snæfellinga í Stykkishólm. Þetta verður 200. leikur Sveinbjörns fyrir ÍR í úrvalsdeild karla.

Hann er annar ÍR-ingurinn sem nær þessu en Eiríkur Önundarson spilaði 350 leiki fyrir ÍR í úrvalsdeildinni. Fyrsti úrvalsdeildarleikur Sveinbjörns var líka á Vesturlandinu en hann skoraði 9 stig í tapi í framlengdumleik á móti Skallagrími í Borgarnesi 7. október 2004.

Sveinbjörn hefur spilað með ÍR en missti mikið úr á árunum 2009 til 2012 vegna meiðsla. Frá upphafi tímabilsins 2012-13 til dagsins í dag hefur Sveinbjörn spilað 70 leiki í röð með ÍR í úrvalsdeildinni. Sveinbjörn hefur skorað 2.362 stig í leikjunum 199 eða 11,9 stig að meðaltali í leik.

Sveinbirni vantar nú "aðeins" fimmtán stoðsendingar upp á það að vera með bæði 500 fráköst og 500 stoðsendingar í úrvalsdeildinni.

Þrír aðrir leikir fara fram í 9. umferð Domino’s-deildar karla í kvöld. Höttur tekur á móti Stjörnunni, Þór úr Þorlákshöfn heimsækir Njarðvík og Haukar mæta Grindavík á Ásvöllum í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×