Körfubolti

Ragnar: Ég varð mér til skammar í kvöld

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Ragnar Nathanaelsson var ósáttur við eigin frammistöðu.
Ragnar Nathanaelsson var ósáttur við eigin frammistöðu. vísir/ernir

„Þetta er miklu meira en vonbrigði, þetta er bara vitleysisgangur í okkur hvernig við mættum í þennan leik,“ sagði Ragnar Nathanaelsson, miðherji Þórs, gríðarlega vonsvikinn að leik loknum.

„Það var eitthvað andleysi yfir liðinu og ég get ekki útskýrt afhverju. Ég á að vera leiðtogi í þessu liði og ég var einfaldlega hauslaus. Um leið og þeir fara að setja skot þá gefumst við bara upp sem lið sem má ekki gegn jafn sterku liði og Haukum,“ sagði Ragnar sem sagði að þetta væri einfaldlega ekki boðlegt.

„Að spila svona á heimavelli er ófyrirgefanlegt og við verðum að spila mun betur en þetta ef við ætlum að blanda okkur í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni. Það er vitleysa að mæta í tvo leiki í röð eins og við gerðum eftir að hafa unnið frábæran sigur á Stjörnunni. Við þurfum að hugsa okkar gang sem einstaklingar og lið fyrir næstu umferð.“

Ragnar æfði töluvert með Finni Atla í sumar en Finnur hafði betur í baráttunni í kvöld.

„Við æfðum mikið saman með landsliðinu í sumar og ég er vanur að spila á móti honum. Ég kann á hann, veit að hann getur skotið og í raun gert allt en ég kem inn í þetta svona. Þetta varð auðvelt fyrir hann því ég var ekki að spila vörn gegn honum og hann átti frábæran leik,“ sagði Ragnar sem fór ekkert í felur þegar hann var spurður út í eigin frammistöðu:

„Ég var einfaldlega mér til skammar í kvöld. Ég veit ekki hvað ég get gert til að ná mér upp úr þessu og þetta var einfaldlega skelfilegt hjá mér og öllu liðinu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×