Körfubolti

Ilievski: Setjum stefnuna á úrslitakeppnina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ilievski bíður erfitt verkefni í Breiðholtinu.
Ilievski bíður erfitt verkefni í Breiðholtinu. vísir/stefán
Borce Ilievski stýrði ÍR í fyrsta sinn þegar liðið tapaði með 14 stiga mun, 100-86, fyrir Njarðvík í Ljónagryfjunni í kvöld.

Þjálfarinn var sáttur með framlag sinna manna en sagði þeir þurfi að spila mun betri varnarleik í næstu leikjum.

"Við misstum einbeitinguna á nokkrum augnablikum í seinni hálfleik. Njarðvík er með lið sem kann að refsa og sérstaklega þeirra reyndu menn, eins og Logi (Gunnarsson) og Haukur (Helgi Pálsson).

"Þeir náðu svo forskoti sem þeir héldu út leiktímann," sagði Ilievski sem hefur einnig stýrt Tindastóli, Breiðabliki og KFÍ hér á landi.

Ilievski kvaðst nokkuð ánægður með sóknarleik ÍR-inga en það vantaði ýmislegt upp á í varnarleiknum að hans mati.

"Sóknin gekk nokkuð vel en ég er aðallega varnarþjálfari og er ekki ánægður þegar andstæðingurinn skorar 100 stig. Ég vil halda þeim í um 75 stigum," sagði Ilievski sem náði aðeins einni æfingu með ÍR-liðinu fyrir leikinn í kvöld en hann tók við starfinu af Bjarna Magnússyni í gær.

"Ég er samt ánægður með vinnuna sem leikmennirnir lögðu í leikinn. Þetta er góður hópur og ég hef trú á því að hann muni bæta sig."

ÍR-ingar eru sem stendur í 10. sæti deildarinnar með fjögur stig. Ilievski setur stefnuna á úrslitakeppnina en þangað komast átta efstu lið Domino's deildarinnar.

"Við þurfum að setja markið hátt og ég verð ánægður ef við komust í úrslitakeppnina," sagði Ilievski að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×