Körfubolti

FSu lítil fyrirstaða fyrir Grindavík | Blikar og Haukar b einnig komnir áfram

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Grindvíkingar eru komnir áfram í 16-liða úrslit Powerade-bikars karla en þeir unnu 20 stiga sigur, 91-71, á FSu í Röstinni í kvöld.

Eric Wise fór mikinn í sínum öðrum leik fyrir Grindavík og skoraði 32 stig, þar af 20 í seinni hálfleik. Hann tók einnig 10 fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Grindvíkingar höfðu mikla yfirburði undir körfunni, unnu frákastabaráttuna 59-39 og skoruðu 44 stig inni í teig gegn 16 hjá Sunnlendingum sem voru aðeins með 31% skotnýtingu í leiknum.

Staðan í hálfleik var 45-34, Grindavík í vil, og í 3. leikhluta gengu heimamenn endanlega frá leiknum. Þeir unnu leikhlutann 28-13 og leiddu með 22 stigum, 69-47, fyrir fjórða og síðasta leikhluta.

Leikstjórnandinn Jón Axel Guðmundsson skoraði 18 stig í liði Grindavíkur og þá skilaði Páll Axel Vilbergsson góðu dagsverki en hann skoraði 15 stig, tók átta fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Hjá FSu var fátt um fína drætti en Gunnar Ingi Harðarson var stigahæstur gestanna með 20 stig.

Grindavík-FSu 91-71 (18-18, 23-16, 28-13, 22-24)

Grindavík: Eric Julian Wise 32/10 fráköst/5 stoðsendingar, Jón Axel Guðmundsson 18/5 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 15/8 fráköst, Ingvi Þór Guðmundsson 8/7 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 6/4 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 5/9 fráköst/5 stoðsendingar, Daníel Guðni Guðmundsson 5, Þorleifur Ólafsson 2/4 fráköst, Magnús Már Ellertsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Hilmir Kristjánsson 0/4 fráköst.

FSu: Gunnar Ingi Harðarson 20/7 fráköst, Ari Gylfason 12, Cristopher Caird 11/6 fráköst, Svavar Ingi Stefánsson 10, Christopher Anderson 9/9 fráköst, Bjarni Geir Gunnarsson 4, Geir Elías Úlfur Helgason 2, Maciej Klimaszewski 2, Birkir Víðisson 1, Hlynur Hreinsson 0, Arnþór Tryggvason 0, Haukur Hreinsson 0.

Bikarmeistarar Stjörnunnar eru sömuleiðis komnir áfram í 16-liða úrslitin, líkt og Keflavík sem vann 80 stiga sigur á KV í dag.

Þá komust Breiðablik og Haukar b einnig áfram í dag. Blikar lögðu Grundarfjörð, 75-93, á útivelli og Haukar b unnu Stjörnuna b með 10 stigum, 68-78.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×