Körfubolti

Körfuboltakvöld: Var búinn að heyra að hann væri með Excel-skjal | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stór frétt barst frá Sauðárkróki í gær þegar tilkynnt var um brottrekstur Pieti Poikola frá Tindastóli.



Finninn, sem er einnig landsliðsþjálfari Dana, tók við Stólunum í sumar en entist aðeins fjóra leiki í starfi. Tindastóll vann fyrstu tvo leikina í Domino's deildinni en hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum, fyrir Þór frá Þorlákshöfn og Haukum.

Sjá einnig: Pieti Poikola gagnrýnir „varnarkúltúr“ Domino's deildarinnar

Brottrekstur Poikola var til umræðu í Domino's Körfuboltakvöldi í gær en sérfræðingar þáttarins voru gagnrýnir á skiptikerfi Finnans sem skiptir mönnum inn og út í tíma og ótíma.

„Nei, þetta kemur ekki á óvart. Ég var búinn að spá því að það yrðu einhver vandræði þarna,“ sagði Kristinn Friðriksson um tíðindi gærdagsins.

„Hann er að keyra ný kerfi í vörn og sókn og ég held að þetta hafi bara ekki lagst vel í mannskapinn,“ bætti Kristinn við en hann lék með og þjálfaði Tindastól á sínum tíma.

Hermann Hauksson segir að skiptikerfið sem Poikola notast við virki einfaldlega ekki í deildinni hér á heima.

„Ég er enginn aðdáandi þessa kerfis, þessara hröðu innáskiptinga. Þetta virkar í einhverjum deildum í Bandaríkjunum, í háskólaboltanum þar sem menn eru meiri hlutverkaleikmenn. Hérna á Íslandi þarftu bara miklu meiri tíma,“ sagði Hermann og Kristinn bætti við:

„Ég var búinn að heyra að hann væri með Excel-skjal með innáskiptingum. Þetta gengur bara ekki upp.“

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×