Fótbolti

Hjálmar heldur í við toppliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hjálmar í leik með IFK Gautaborg.
Hjálmar í leik með IFK Gautaborg. Vísir
Gautaborg gerði sitt til að halda spennu í titilbaráttu sænsku úrvalsdeildarinnar en liðið hafði betur gegn AIK á útivelli í kvöld, 2-1.

IFK Gautaborg er nú stigi á eftir toppliði IFK Norrköping þegar aðeins ein umferð er eftir af tímabilinu. AIK er í þriðja sætinu með 60 stig en titilvonir liðsins fóru nánast út um gluggann í kvöld.

Hjálmar Jónsson spilaði allan leikinn í vörn Gautaborgar en þessi þaulreyndi kappi hefur verið fastamaður hjá AIK síðan í vor. Hjálmar er 35 ára og hefur spilað með Gautaborg undanfarin þrettán ár.

Henok Goitom kom AIK yfir á nítjándu mínútu en aðeins tveimur mínútum jafnaði Gustav Engvall metin fyrir Gautaborg. Engvall skoraði svo sigurmarkið á 59. mínútu leiksins.

IFK Gautaborg mætir Kalmar, sem er í þrettánda sæti, á heimavelli í lokaumferðinni á laugardag. Norrköping, sem Arnór Ingvi Traustason leikur með, mætir þá sterku liði Malmö á útivelli. Malmö er í fjórða sæti deildarinnar.

Íslendingar voru einnig á ferðinni í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Ari Freyr Skúlason og Hallgrímur Jónsson spiluðu báðir fyrir OB sem gerði 1-1 jafntefli við Randers. Bæði lið eru um miðja deild eftir þrettán umferðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×