Fótbolti

Sjálfs­mark endaði sigurgönguna og dramatík í Aserbaísjan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camilo Duran skoraði tvö fyrstu mörk Qarabag í leiknum og fagnar hér öðru þeirra. 
Camilo Duran skoraði tvö fyrstu mörk Qarabag í leiknum og fagnar hér öðru þeirra.  Getty/Aziz Karimov/

Sigurganga spænska liðsins Atletico Madrid í Meistaradeildinni endaði í kvöld en aserska liðið Qarabag vann á sama tíma dramatískan sigur.

Atletico Madrid komst yfir á útivelli á móti tyrkneska félaginu Galatasaray en fékk síðan á sig sjálfsmark sem tryggði heimamönnum stig.

Atletico var búið að vinna þrjá Meistaradeildarleiki í röð og Giuliano Simeone, sonur þjálfarans, kom liðinu yfir með skalla á fjórðu mínútu.

Marcos Llorente varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark á 20. mínútu og fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum. 1-1 var niðurstaðan.

Það stefndi líka í jafntefli hjá Qarabag FK og Frankfurt í Aserbaísjan þar sem bæði lið höfðu komist yfir. Bahlul Mustafazade skoraði sigurmark Qarabag á fjórðu mínútu í uppbótartíma við gríðarlegan fögnuð.

Frankfurt vann fyrsta leik sinn í keppninni en hefur síðan ekki tekist að vinna í sex leikjum í röð.

Camilo Duran skoraði fyrstu tvö mörk heimamanna, kom Qarabag í 1-0 á 4. mínútu og jafnaði svo metin í 2-2 á 80. mínútu.

Can Uzun jafnaði fyrir Frankfurt á 10. mínútu og Fares Chaibi kom þýska liðinu yfir með marki úr vítaspyrnu á 78. mínútu. Aðeins tveimur mínútum síðar voru Aserarnir búnir að jafna.

Þeir voru ekki hættir heldur tryggðu sér dramatískan sigur með síðustu spyrnu leiksins. Sigurinn kemur Qarabag upp í sautjánda sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×