Íslenski boltinn

Bjarni: Hef ekki tíma til þess að velta mér upp úr stöðu minni

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Bjarni er undir pressu eftir slakt gengi að undanförnu.
Bjarni er undir pressu eftir slakt gengi að undanförnu. vísir/anton
„Fyrstu viðbrögð eru auðvitað bara svekkelsi og vonbrigði, rauða spjaldið setti strik í reikninginn,“ sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, svekktur eftir 0-3 tap sinna manna fyrir Stjörnunni á heimavelli.

„Annað markið er markið sem gengur langt með að klára leikinn. Það mark var afar pirrandi, það er erfitt að koma til baka tveimur mörkum undir gegn jafn góðu liði og þeir skora strax á fyrstu mínútu í seinni hálfleik.“

Bjarni kunni ekki skýringu á sofandihátt í varnarleik liðsins þegar Stjarnan bætti við öðru marki leiksins. Virtust leikmenn liðsins vera sofandi er Stjarnan tók aukaspyrnu.

„Það er ekki á einhvern einn að benda, við erum allir komnir fyrir aftan boltann og við vorum ekki tilbúnir í þetta einfaldlega.“

KR hefur aðeins fengið 10 stig af 24 mögulegum í síðustu 8 leikjum en Bjarni segist ekki vera farinn að óttast um starf sitt.

„Við erum ekki að skora nógu mikið, okkur hefur þar til í dag gengið vel að halda hreinu en við þurfum að vinna í þessum málum innanborðs og komum sterkari til leiks. Ég hef ekki tíma til þess að velta mér upp úr stöðu minni, ég einbeiti mér að liðinu.“

Bjarni tók undir að það væri pressa fyrir leikmenn KR.

„Ég ætla rétt að vona að þeir séu óánægðir, við erum ekki samankomnir til að skila ekki titli. Þeir eru ekki síður óánægðir rétt eins og ég, stjórnin og stuðningsmennirnir með árangurinn. Þetta er eitthvað sem við sættum okkur ekki við og þurfum að gera mun betur.“

Eftir tapið er Fjölnir aðeins þremur stigum á eftir KR þegar tvær umferðir eru eftir í baráttunni um sæti í Evrópudeildinni á næsta ári.

„Það er heilmikið eftir fyrir okkur. Það er alveg sama í hvaða leik það er, ef þú ert í KR treyjunni þá þarftu að leggja þig fram í alla leiki sama hver mótherjinn og tilefnið er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×