Íslenski boltinn

Arnar um Bjarna Guðjónsson: Stjórn KR verður líka að taka smá ábyrgð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gengi KR í Pepsi-deildinni hefur ekki verið upp á marga fiska á undanförnum vikum en í gær tapaði liðið 0-3 fyrir Stjörnunni á heimavelli.

Eftir sigurinn góða á FH í 12. umferð hefur KR aðeins fengið 10 stig í átta deildarleikjum og nú er svo komið að Evrópusætið er í hættu en aðeins þremur stigum munar á KR-ingum og Val og Fjölni sem eru í 4. og 5. sæti.

Staða Bjarna Guðjónssonar, þjálfara KR, var meðal þess sem var til umræðu í Pepsi-mörkunum í gær.

„Fyrir tímabilið þegar stjórn KR réði Bjarna vissu þeir að þeir voru að ráða reynslulausan þjálfara. Hann átti bara eitt tímabil að baki með Fram,“ sagði Arnar Gunnlaugsson sem var gestur Harðar Magnússonar ásamt Hjörvari Hafliðasyni.

„Og þá verður þú að taka því góða með því slæma. Sumar ákvarðanir hjá Bjarna í sumar hafa verið mjög góðar, sérstaklega í FH-leiknum, en eftir hann hefur hann stundum brugðist. En þá þarf stjórn KR líka að taka smá ábyrgð á ráðningunni og ekki bara henda honum út í hafsauga.

„Þeir þurfa að gefa honum meiri séns því sumar ákvarðanir í sumar hafa verið reynsluleysi að kenna,“ bætti Arnar við en Hjörvar segir að Bjarni sé ekki öruggur með starf sitt.

„Bjarni talar eins og hann verði áfram en ég held að hann þurfi að ná í úrslit í þessum tveimur leikjum. Ef hann tapar þeim báðum er ég ekki alveg viss hvað verður,“ sagði Hjörvar.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×