Erlent

Nú má handtaka flóttafólk í Ungverjalandi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Ný lög tóku gildi í Ungverjalandi á miðnætti sem ætlað er að hægja á straumi flóttafólks til landsins.
Ný lög tóku gildi í Ungverjalandi á miðnætti sem ætlað er að hægja á straumi flóttafólks til landsins. Vísir/AFP
Það er nú orðið refsivert að fara yfir landamærin til Ungverjalands án þess að hafa til þess tilskilin leyfi. Lögreglan má því nú handtaka hvern þann sem kemst fram hjá rammgirtum landamærunum að Serbíu. 

Lög þess eðlis tóku gildi á miðnætti að ungverskum tíma en landið hefur nú um nokkurt skeið barist við að halda straumi flóttafólks í skefjum. 

Þá er einnig refsivert að vinna skemmdir á nýjum fjögurra metra háum vegg sem settur hefur verið upp við landamærin að Serbíu. 

Ungverjaland er lykilstaður fyrir marga flóttamenn sem flýja frá Mið-Austurlöndum og Afríku til Evrópu. Hefur straumurinn þangað verið gríðarlegur síðustu vikur og mánuði en á sunnudag komu 5.809 inn fyrir landamærin. Áður höfðu mest 4.330 komið til landsins á einum degi. 

Evrópusambandið hefur samþykkt að færa 40 þúsund flóttamenn frá Grikklandi og Ítalíu til annarra Evrópusambandsríkja, frá og með deginum í dag.

Ekki tókst hins vegar að ná sátt um að fjölga kvótaflóttamönnum í 120 þúsund á fundi innanríkisráðherra sambandsríkjanna í gær. Frekari samningaviðræður um aukningu kvótans fara fram í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×