Íslenski boltinn

Sandra María enn á ný fljót að skora með A-landsliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra María Jessen í leiknum í gær.
Sandra María Jessen í leiknum í gær. Vísir/Anton
Akureyringurinn Sandra María Jessen kom íslenska landsliðinu í 1-0 eftir aðeins fjögurra mínútna leik 4-1 sigri íslensku stelpnanna í vináttulandsleiknum á móti Slóvakíu á Laugardalsvellinum í gær.

Sandra María Jessen hefur með þessu skorað fjögur mörk í fyrstu átta leikjum sínum fyrir A-landsliðið en hún var þarna að leika sinn fyrsta landsleik í rúm tvö ár eða síðan hún varð fyrir því óláni að slíta krossband.

Sandra María var þarna enn einu sinni fljót að skora í landsleik en þetta var samt í fyrsta sinn sem hún skorar sem byrjunarliðsmaður því fyrstu þrjú mörkin skoraði hún sem varamaður. Í sex af þessum fyrstu átta landsleikjum Söndru hefur hún byrjað á bekknum en komið síðan inná.

Sandra María Jessen skoraði tvö fyrstu mörkin sín með landsliðinu í tveimur fyrstu landsleikjum sínum og í bæði skiptin innan við fjórum mínútum eftir að henni var skipt inná.

Fyrsta markið skoraði hún aðeins þremur mínútum eftir að hafa komið inná í sinn fyrsta landsleik á móti Ungverjalandi í júní 2012 og mark númer tvö kom aðeins þremur mínútum eftir að hún kom inná sem varamaður í öðrum landsleik hennar sem var á móti Skotlandi í ágúst 2012.

Sandra María skoraði líka eftir að hafa komið inn á sem varamaður í 4-1 sigri á Ungverjalandi á Algarve-mótinu í mars 2013. Þá liðu þó tuttugu mínútur frá því að hún kom inná völlinn þar til að hún skoraði fjórða mark íslenska liðsins.

Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins, henti Söndru Maríu inn í byrjunarliðið fyrir Slóvakíuleikinn og eftir aðeins tæplega fjögurra mínútna leik þá var hún búin að skora. Sandra María fékk annað dauðafæri skömmu síðar en tókst ekki að nýta það.

Sandra María Jessen spilaði bara fyrri hálfleikinn í gær og hefur þar með enn ekki spilað lengur en 45 mínútur í A-landsleik.


Tengdar fréttir

Stelpurnar á pari í Dalnum

Kvennalandsliðið í fótbolta vann 4-1 sigur á Slóvakíu í æfingaleik í Laugardalnum í gær en þrátt fyrir sigurinn var ekki að sjá að leikmenn liðsins væru ánægðir með spilamennsku liðsins sem var sveiflukennd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×