Innlent

Hvetja Íslendinga til að taka á móti fleiri Sýrlendingum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Sýrlensk hjón sem flúðu loftárásir og borgarastyrjöld í heimalandi sínu segja mikilvægt fyrir Íslendinga að taka öðrum sýrlenskum flóttamönnum opnum örmum. Þau eiga sér þá ósk heitasta að hitta fjölskyldur sínar á ný.

Hjónin Yousef og Nisreen komu til Íslands 29. janúar síðastliðinn. Þau eru kvótaflóttamenn og komu ásamt þrettán öðrum. Synir þeirra eru Mohammad Ali og Khaled.

Yousef og Nisreen flúðu heimili sitt í stríðshrjáðu stórborginni Aleppo í janúar 2013. Í skugga nætur, þegar orrustuþotur vörpuðu sprengjum á borgaraleg skotmörk, flúði fjölskyldan og hélt í átt að landamærunum að Tyrklandi.

Aðeins Yousef var með vegabréf. Það var á þessum tímapunkti sem bakarinn Yousef og húsmóðirinn Nisreen gerðust flóttafólk.

„Tveggja klukkustunda akstur að landamærunum að Tyrklandi tók tíu klukkustundir þessa nótt. Sýrlenski flugherinn var að varpa sprengjum á borgina. Þetta var einfaldlega of hættulegt fyrir okkur. Nágrannar okkar og við flúðum um nóttina. Þetta er hættulegt og við óttuðumst um líf okkar og barnanna,“ segir Yousef.

Hjónin sóttu um hæli í gegnum Sameinuðu Þjóðirnar og Ísland svaraði kallinu. Í fyrstu hafi verið erfitt að aðlagast lífinu á Íslandi.

„Auðvitað, af því að það er friður á Íslandi þá er lífið betra. Okkur gengur mjög vel. Við erum að aðlagast samfélaginu og það gengnur vel,“ segir Nisreen.

Yousef og Nisreen tóku ekkert með sér frá Sýrlandi. Engar ljósmyndir, engin leikföng. Þau sögðu jafnframt skilið við fjölskyldur sínar. Nisreen segist sagna föðurs síns sem enn er í Aleppo.

„Við styðjum Íslendinga í því að taka á móti fleiri Sýrlendingum. Staða þeirra er hræðileg. Það eru engin sjúkrahús. Enginn matur og fólkið sveltur.“

„Stríðinu lýkur ekki á næstunni. Miðað við fréttir frá Sýrlandi þá mun stríðið vara lengi. Þess vegna hvetjum við íslensk yfirvöld og öll evrópsk ríki til að rétta út hjálparhönd til sýrlensku þjóðarinnar og hjálpa þeim að flýja landið og upplifa frið.“



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×