Íslenski boltinn

Þorkell Máni: Blikar hótuðu að Ólafur Karl yrði brotinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Útvarpsmaðurinn Þorkell Máni Pétursson birti í dag Twitter-færslu sem vakti mikla athygli.

Þar sagði hann Blikar hljóti að fagna því að Ólafur Karl Finsen verði ekki með í leik Stjörnunnar og Breiðabliks á mánudaginn kemur en Ólafur Karl er farinn til norska B-deildarliðsins Sandnes Ulf á láni út tímabilið eins og greint var frá á Vísi.

Máni ásakaði jafnframt aðila tengda Breiðabliki að hafa hótað Ólafi Karli fyrir fyrri leik liðanna 31. maí. Blikar unnu leikinn 3-0 og bundu þar með enda á 27 leikja taplausa hrinu Stjörnunnar í röð.

Leikurinn sjálfur féll samt í skuggann af uppákomu sem átti sér stað nokkrum dögum fyrir leikinn þegar Ólafur fór inn í búningsklefa Blika á Kópavogsvelli og rótaði þar í persónulegum munum leikmanna liðsins.

Ólafur var settur á bekkinn fyrir leik Breiðabliks og Stjörnunnar og vill Máni meina að hótanir Blika í garð leikmannsins hafi haft sitt að segja þar um.

„Það vita nú s.s. allir að Ólafur Karl Finsen tók athyglina frá leiknum með uppákomu þar sem hann fór inn í klefa Breiðabliks eins og frægt er orðið,“ sagði Máni í samtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Akraborginni nú rétt í þessu. Sjálfur var Máni ekki hrifinn af þessu uppátæki Ólafs, en þeir tveir eru miklir vinir.

„Ég er enn að velta fyrir mér hvernig honum datt þetta í hug, þar sem hann verður seint sakaður um að vera mjög mannblendinn.

„Það sem gerist svo er að menn verða ofboðslega reiðir, og það var að mörgu leyti skiljanlegt. Það er alveg deginum ljósara að það var það sem Ólafi Karli gekk til - að æsa menn upp. Ég er á engan hátt að afsaka það sem hann gerði en menn horfðu á þetta og höfðu tiltölulega gaman að þessu, þótt þetta væri ekki fyndið.“



Máni var um tíma aðstoðarþjálfari Keflavíkur.vísir/daníel
Máni segir að í kjölfarið hafi Ólafi og Stjörnumönnum borist hótanir frá aðilum tengdum Breiðabliki.

„Það komu skýr skilaboð til Stjörnumanna og til leikmannsins að hann eigi von á því að vera brotinn í þessum leik,“ sagði Máni sem vill þó ekki nafngreina þessa einstaklinga.

„Þetta voru aðilar tengdir Breiðabliki. Það komu nafnlaus skilaboð til mín sem er náttúrulega bara kjánalegt. Fólk sem talar nafnlaust er vandræðalegt fólk.“

Eins og áður sagði byrjaði Ólafur Karl leikinn á bekknum. Máni hefur sína skoðun á því.

„Við skulum velta því aðeins upp og hvert ég er að fara með þessari færslu. Það er sú staðreynd að Ólafur Karl var settur á bekkinn út af agabroti. Því það fór eitthvað fram bak við tjöldin sem við fengum aldrei að vita af,“ sagði Máni.

„Markmið Breiðabliks var klárlega að koma manninum út úr leiknum og það tókst. Menn beita alls konar ráðum til að ná árangri.

„Þá voru menn ekkert að beita einhverjum líkamlegum hótunum, heldur voru menn að beita öðrum hótunum varðandi kærur og aðra hluti, því við skulum átta okkur því að Ólafur Karl fór inn í klefann í leyfisleysi.

„Einhver svoleiðis símtöl áttu sér stað. Það þarf ekki mikla rannsóknarblaðamennsku til að fatta af hverju Stjarnan setti hann á bekkinn.“

Máni er einnig ósáttur með hvernig Blikar fögnuðu eftir leikinn og að þeir sáu ekki ástæðu til að skammast sín fyrir framferði sitt.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×