Handbolti

Stór mis­tök Al­freðs reyndust Þjóð­verjum dýr­keypt

Aron Guðmundsson skrifar
Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands
Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands Getty/Daniel Karmann

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu í handbolta þurftu að sætta sig við svekkjandi tap gegn Serbum á EM í handbolta í kvöld. Á ögurstundu gerði Alfreð mistök sem reyndust Þjóðverjum dýrkeypt. 30-27 urðu lokatölurnar, þriggja marka sigur Serbíu.

Fyrir leik vissu Þjóðverjarnir að sigur gegn Serbum í kvöld myndi tryggja þeim sæti í milliriðlum mótsins en á sama tíma úrslitaleik við Spánverja í lokaumferð riðilsins um toppsæti A-riðils og hvort liðið tæki með sér stig inn í milliðriðilinn.

Leikur kvöldsins var hin mesta skemmtun og voru það Þjóðverjar sem leiddu hann lengi vel og voru til að mynda fjórum mörkum yfir í hálfleik 17-13.

En eftir því sem líða tók á seinni hálfleikinn jókst pressa Serbanna og þegar komið var inn í lokamínútur leiksins stóð hann jafn. 25-25.

Þegar um þrjár mínútur eftir lifðu leiks komust Serbarnir yfir 26-25. Juri Knorr kom boltanum í netið í næstu sókn fyrir Þjóðverja en Alfreð hafði beðið um leikhlé nokkrum sekúndubrotum áður en skot Knorr endaði í netinu og því gat markið ekki talist gilt.

Stórt atvik því Serbum tókst í kjölfarið að bæta við marki og komast í tveggja marka forystu, 27-25.

Þjóðverjarnir brenndu af vítakasti í næstu sókn , það hreinlega var ekkert að ganga upp hjá þeim á þessum tímapunkti leiksins.

Lærisveinum Alfreðs tókst ekki að brúa bilið fyrir lok leiksins sem lauk með þriggja marka sigri Serba 30-27.

Serbía og Þýskaland eru því jöfn með tvö stig að loknum tveimur umferðum og munu berjast um það í lokaumferðinni að komast áfram í milliriðla með Spánverjum.

Þjóðverjar mæta Spánverjum í næstu umferð og geta með sigri tryggt sér toppsæti riðilsins og áfram í milliriðla. Serbía mætir Austurríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×