Íslenski boltinn

Bikarhetjan til KA

Sindri Sverrisson skrifar
Jeppe Pedersen gæti reynst KA öflugur liðsstyrkur en skilur eftir sig stórt skarð hjá Vestra.
Jeppe Pedersen gæti reynst KA öflugur liðsstyrkur en skilur eftir sig stórt skarð hjá Vestra. vísir/Diego

Danski knattspyrnumaðurinn Jeppe Pedersen hefur skrifað undir samning við KA og mun spila með liðinu í Bestu deildinni á komandi leiktíð.

Jeppe verður því ekki með Vestra í fyrsta Evrópuævintýri félagsins næsta sumar, eftir að hafa verið hetja liðsins í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í ágúst og skorað algjört draumasigurmark gegn Val.

Jeppe lék 26 af 27 leikjum Vestra í Bestu deildinni í fyrra en náði ekki að koma í veg fyrir að liðið félli með naumindum niður í Lengjudeildina.

Þessi 24 ára gamli bróðir Patricks Pedersen, markahæsta manns í sögu efstu deildar hér á landi, kom fyrst til Vestra á miðju sumri 2024. Hann er miðjumaður og uppalinn hjá Álaborg, og lék á sínum tíma 32 leiki fyrir yngri landslið Danmerkur.

Samningur Jeppe við KA gildir til næstu tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×