Íslenski boltinn

Haukur Páll samdi við Val til ársins 2018

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukur Páll með Ólafi Jóhannessyni þjálfara Vals og Edvard Berki Edvardssyni formanni knattspyrnudeildar Vals.
Haukur Páll með Ólafi Jóhannessyni þjálfara Vals og Edvard Berki Edvardssyni formanni knattspyrnudeildar Vals. Mynd/Knattspyrnudeild Vals
Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði bikarmeistara Vals og einn öflugasti miðjumaður Pepsi-deildarinnar, verður áfram leikmaður Vals næstu þrjú tímabil.

Haukur Páll endurnýjaði í dag samning sinn við Val sem nær nú út árið 2018. Haukur Páll, sem er 28 ára gamall, hefur verið í Val í fimm ár eða síðan að hann kom þangað frá Þrótti árið 2010.

„Haukur Páll gekk til liðs við Val árið 2010 og hefur síðan verið ómissandi hlekkur í Valsliðinu. Haukur Páll er fyrirliði meistaraflokks Vals, einn besti alhliða miðjumaður deildarinnar og óumdeildur leiðtogi innan Valsliðsins," segir í fréttatilkynningu frá Knattspyrnufélaginu Val.

Haukur Páll er á sínu þriðja ári sem fyrirliði Valsliðsins en hann tók við fyrirliðabandinu af Atla Sveini Þóarinssyni fyrir 2013-tímabilið.

„Knattspyrnudeild Vals lýsir yfir mikilli ánægju með þessa endurnýjun á samningi Hauks Páls. Um er að ræða leikmann sem var eftirsóttur af liðum erlendis en kýs að halda tryggð við sitt félag sem er mikið fagnaðarefni," segir ennfremur í fyrrnefndri fréttatilkynningu.

Haukur Páll hefur leikið 97 leiki fyrir Val í úrvalsdeild karla og það styttist því óðum í hundraðasta deildarleik hans með félaginu.

Mynd/Knattspyrnudeild Vals



Fleiri fréttir

Sjá meira


×