Íslenski boltinn

Hvernig slapp Hafsteinn með gult spjald? | Sjáðu atvikið umtalaða í Vesturbænum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
KR komst auðveldlega í enn einn bikarúrslitaleikinn í gærkvöldi þegar liðið lagði ÍBV, 4-1, undanúrslitum á Alvogen-vellinum í gærkvöldi.

KR-ingar voru miklu betri í leiknum og eitthvað var mótlætið farið að segja til sín hjá Hafsteini Briem, miðverði Eyjamanna.

Á 40. mínútu, í stöðunni 1-0, sparkaði Hafsteinn í Jacob Schoop, Danann í liði KR, þar sem hann lá varnarlaus í grasinu eftir að Þóroddur Hjaltalín var búinn að dæma aukaspyrnu á Hafstein fyrir brot á honum.

Hörður Magnússon og Hjörvar Hafliðason, sem lýstu leiknum beint á Stöð 2 Sport, áttu ekki orð þegar Þóroddur gaf Hafsteini aðeins gult spjald fyrir brotið og Jóhannes Valgeirsson, fyrrverandi milliríkjadómari, tók undir með þeim á Twitter:

Bjarna Guðjónssyni, þjálfara KR, var heldur ekki skemmt á hliðarlínunni og spurði hann fjórða dómara leiksins hvort um grín væri að ræða áður en hann öskraði svo á Þórodd dómara.

Skömmu síðar bætti Hólmbert Aron Friðjónsson við öðru marki sínu í leiknum og þeir Óskar Örn Hauksson og Þorsteinn Már Ragnarsson juku forskotið í 4-0 áður en Bjarni Gunnarsson minnkaði muninn.

Hafsteinn sá þó eftir gjörðum sínum og baðst afsökunar á Twitter-síðu sinni eftir leikinn. Schoop var fljótur að fyrirgefa miðverðinum sterka og sagði það sem gerist inn á vellinum gleymast þar líka.

Í spilaranum hér að ofan má sjá atvikið sem um ræðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×