Fótbolti

Valur fær danskan miðjumann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mathias Schlie.
Mathias Schlie. mynd/skja´skot
Mathias Schlie, 27 ára danskur miðjumaður, er á leið til Vals á láni frá Hobro. Hann er fyrrverandi samherji Patricks Pedersen, framherja Vals, en þeir spiluðu saman hjá Vendyssel í Danmörku.

Schlie gekk í raðir Hobro frá Vendyssel síðasta sumar en spilaði aðeins tvo leiki sem varamaður fyrir Hobro í dönsku úrvalsdieldinni.

Hann hefur ekki komið við sögu hjá Hobro við upphaf nýrrar leiktíðar og var því lánaður til Valsmanna sem eru í toppbaráttunni í Pepsi-deildinni.

„Mathias Schlie er góður leikmaður sem hefur ekki fengið nóg að spila hjá okkur. Við vonum að dvöl hans á Íslandi veiti honum sjálfstraust svo hann komi til baka sem betri leikmaður,“ segir Jens Hammer Sörensen, yfirmaður knattspyrnumála hjá Hobro, á heimasíðu félagsins.

Schlie er annar leikmaðurinn sem Valur fær í félagaskiptagluggannum, en fyrr í mánuðinum gekk Emil Atlason í raðir Hlíðarendafélagsins á láni frá KR.

Valur er í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar með 24 stig, en liðinu mistókst að komast á toppinn á laugardaginn þegar liðið tapaði óvænt fyrir Víkingi.

Valsmenn voru í meiðslavandræðum í þeim leik, en bæði miðvörðurinn Thomas Guldborg Christiansen og miðjumaðurinn Haukur Páll Sigurðsson voru frá vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×