Grikkir hafa hafnað tillögum kröfuhafa í þjóðaratkvæði með yfir 60% atkvæða. Forsætisráðherra landsins Alexis Tsipras hafði hvatt kjósendur til þess að velja „nei“ og sagði tilboð kröfuhafanna móðgun. Hann vonast til þess að ná samningum sem fela ekki í sér jafnharðar aðhaldsaðgerðir.
Þúsundir Grikkja fögnuðu á götum Aþenu í dag eftir að kjörstöðum lokaði. Niðurstaðan setur Grikki óneitanlega í sérstaka stöðu. Það er ekki vitað að svo stöddu hvort þessi útkoma geri það að verkum að Grikkjum verði ýtt út úr evrusamstarfinu og gert að prenta sinn eigin gjaldmiðil að nýju. Það myndi merkja hrikalegar afleiðingar fyrir hagkerfi landsins sem er þegar í molum.
Bankar landsins hafa verið lokaðir í viku og nú liggur á að opna þá aftur svo hægt sé að greiða út laun og lífeyri.
Grikkir áttu að endurgreiða neyðarlán sitt frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um mánaðarmót en það tókst ekki eins og þekkt er. Með því varð það fyrsta þróaða hagkerfi sögunnar sem lendir á vanskilaskrá hjá sjóðnum. Forsvarsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa ekki brugðist við niðurstöðunum. Hins vegar sögðu leiðtogar í Evrópu að ef kjósendur kysu „nei“ myndi það eyðileggja allan grundvöll samningaviðræðna þar sem það myndi sýna að Grikkir væru ekki tilbúnir til að taka þau skref sem þyrfti til að koma fjármálum sínum í lag og efla hagkerfi sitt.
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Francois Hollande, forseti Frakklands, munu hittast á morgun og ræða niðurstöðurnar. Allir leiðtogar þjóðanna sem nota evruna munu svo funda á þriðjudag.
„Niðurstaðan er mjög sorgleg fyrir Grikkland,“ sagði Jeroen Dijsselbloem sem er formaður hóps fjármálaráðherra í evrusamstarfinu. Telur hann grísk stjórnvöld vera að leiða þjóð sína veg vonleysis og biturrar eymdar.

