"Eins ánægður og ég var með markið mitt þá var ég jafnóánægður með vítið," sagði Albert Brynjar Ingason en hann skoraði mark Fylkis í kvöld og klúðraði svo víti.
"Ég kaupi það ekki að menn eigi ekki að taka víti sem þeir fiska sjálfir. Það skiptir engu máli á hverjum er brotið. Þetta var samt ekki gott víti."
Markið hans var einstaklega skemmtilegt. Frábær skalli sem Gunnleifur átti ekki möguleika á að verja.
"Reynir Leós aðstoðarþjálfari er búinn að vera duglegur að skjóta á mig fyrir að vera ekki jafngóður skallamaður og pabbi minn. Það var gaman að troða sokk upp í Reyni," sagði Albert brattur en fyrir þá sem ekki vita er faðir hans einn mesti markaskorari Íslands frá upphafi, Ingi Björn Albertsson.
"Ég er svekktur með niðurstöðuna í leiknum. Við vorum með góð tök á leiknum í fyrri hálfleik. Það vantaði að klára sóknirnar betur. Ég var ánægður með minn leik fyrir utan vítið. Það var margt jákvætt hjá mér og liðinu sem má byggja ofan á," sagði Albert en hann vildi ekki gefa upp hvað hann ætlaðisér að skora mikið í sumar.