Íslenski boltinn

„Sé þá ekki vinna í ár“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik vann Meistarakeppni KSÍ um síðustu helgi.
Breiðablik vann Meistarakeppni KSÍ um síðustu helgi. vísir/hulda margrét

Baldur Sigurðsson, sérfræðingur Stúkunnar, telur að Breiðablik sé vel í stakk búið til að verja Íslandsmeistaratitilinn en heldur samt að þeim takist það ekki.

Breiðabliki er spáð 1. sæti Bestu deildar karla í spá íþróttadeildar Vísis og Stöðvar 2. Blikar urðu Íslandsmeistarar á síðasta tímabili eftir sigur á Víkingum í úrslitaleik.

„Möguleikarnir eru nokkuð góðir. Við getum ekkert skafið af því. Þeir eru gott lið og búnir að fá inn spennandi leikmenn, bæði unga og reynslumeiri eins og til dæmis Tobias Thomsen sem eru nýjustu kaupin frammi. Þeir voru að leita að framherja. Hann er kominn og við verðum að sjá í hvaða standi hann er og hvort hann geti verið markaskorarinn sem Breiðablik var að leita að,“ sagði Baldur.

Klippa: 1. sæti Breiðablik

„Önnur kaup eru búin að vera spennandi en maður hefur smá áhyggjur af vörninni, að vera búnir að missa Damir [Muminovic] og hafa hann ekki í byrjun. Væntanlega kemur hann um mitt mót, kannski aðeins fyrr,“ sagði Baldur.

„Svo er það stærsta atriðið og það er erfitt að viðhalda árangri. Það er erfitt að verja titil. Það er þeirra verkefni í ár. Við sjáum að þeir hafa verið að skipta titlinum á milli sín undanfarin fjögur ár; Breiðablik og Víkingur. Þegar lið eru búin að gera eins og Breiðablik núna, bæta í finnst mér, væri eðlilegast að spá þeim titlinum en ég sé þá ekki vinna hann í ár.“

Breiðablik mætir Aftureldingu á Kópavogsvelli í upphafsleik Bestu deildarinnar í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×