„Það er mikið af fólki búið að koma til mín og spyrja hvað þetta þýðir. Það er mikið af útlendingum að vinna hérna sem héldu að stjórnendur uppi sem vinna hérna dags daglega væru líka að hækka, ekki bara stjórnin,“ segir Gissur.
Sjá einnig: „Það gilda bara allt önnur lögmál um þetta fólk“
Gissur bendir á að stafsmönnum svíði að fá ekki að njóta góðs af miklum uppgangi sem hefur verið hjá fyrirtækinu að undanförnu. HB Grandi hagnaðist um 5,6 milljarða á síðasta ári og greiddi af því 2,7 milljarða í arð. „Við erum alltaf að setja ný met, ég vinn á þannig stað að ég sé hvert metið á fætur öðru falla. Við erum alltaf að setja ný met en fáum aldrei neitt,“ segir hann.
Gissur segir starfsfólk HB Granda sem vinnur hjá Eflingu verulega ósátta við hve viðræður um nýjan kjarasamning eru skammt á veg komnar. „Efling er enn í kjararáði þannig að það er ekki komið neitt, ekki verkfallsboðanir eða neitt. Fólk er mjög óánægt með Eflingu. Fólki finnst Efling sitja á rassgatinu að gera ekki neitt,“ segir Gissur og bætir við að starfsfólk sé að hugsa um að skipta um stéttarfélag.
Jónína Björg Magnúsdóttir, fiskverkakona hjá HB Granda á Akranesi segir starfsfólk fyrirtækisins þar ósátt. Þó þýði lítið annað en að vera bjartsýn og vona það besta. „Við erum mjög ánægð ef við eigum í vændum 33% launahækkun, sem við gerum okkur grein fyrir að er ekki mjög líkleg,“ segir hún.
Sjá einnig: Keiluþjálfari og frystihússtelpa sló í gegn
Jónína segir starfsmenn HB Granda myndu einnig sætta sig við sömu krónutöluhækkun og stjórnarmenn fengu, 50 þúsund krónur á mánuði. „Við eigum að geta lifað á launum okkar hvort sem við erum einstæðar, giftar eigum mörg börn eða enginn börn.“ segir Jónína.
Jónína gaf nýlega út lag með samstarfsmönnum sínum þar sem hún gagnrýndi að starfsmenn HB Granda hefðu verið verðlaunaðir með íspinna fyrir að tvöfalda afköst í fiskvinnslunni og má sjá í spilaranum hér að ofan.
Sjá einnig: Hárbeitt ádeilumyndband fiskverkafólks á Akranesi
Jónína segir að starfsfólk vilji krónutöluhækkanir. „Vaninn er að hækkanir fari upp allan skalann. Þannig að ef allir hækka um 20% mun yfirmaður með tvær milljónir á mánuði hækka um útborguð mánaðarlaun hjá okkur,“ segir hún
Launahækkanirnar með ólíkindum
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir einnig launahækkanir stjórnarmanna HB Granda í færslu á Facebook og spyr hvort tvær þjóðir búi í landinu.
„Beint ofan í ólgu á vinnumarkaði, sem líkleg er til að leiða til mestu verkfalla um áratugi. Það eru svona vinnubrögð sem kynda undir reiðinni. Þeir sem mest eiga raka til sín – hinir mega éta þau 3,5 % sem úti frjósa“ segir Össur.
„Hvers vegna fær fiskverkafólkið hjá HB Granda ekki 33 % líka? Það hlýtur að verða krafan,“ segir Össur.
Stefán segir HB Granda vel geta borgað hærri laun
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, bendir á að fyrirtækið eigi vel efni á að hækka laun hinna lægst launuðu í færslu á Eyjunni. Stefán bendir á að það myndi kosta fyrirtækið 900 milljónir á ári að hækka laun allra um 80 þúsund krónur á mánuði. Með því fengju lægst launuðu starfsmenn HB Granda sömu prósentuhækkun og stjórnarmenn. Stefán segir að með því myndi hagnaður HB Granda einungis lækka úr 5,6 milljörðum í 4,7 milljarða.