Íslenski boltinn

Pressan er á Íslandsmeisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Baldur Sigurðsson, fyrirliði KR, og Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkur.
Baldur Sigurðsson, fyrirliði KR, og Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkur. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
KR hefur gengið frábærlega í bikarkeppninni á undanförnum árum. Leikurinn í dag er fimmti bikarúrslitaleikur Vesturbæjarliðsins á síðustu sjö árum og sá fjórði á síðustu fimm. Síðan Rúnar Kristinsson tók við KR um mitt sumar 2010 hefur liðið unnið 18 af 20 bikarleikjum sínum.

Baldur og bikarúrslitin

Baldur Sigurðsson, fyrirliði KR, er einn af lykilmönnunum á bak við þennan magnaða árangur. Mývetningurinn hefur skorað tólf mörk í 23 bikarleikjum fyrir KR á síðustu fimm árum, en tvö þessara marka komu í bikarúrslitaleikjum.

Hann skoraði seinna mark KR í 2-0 sigri á Þór 2011 og sigurmark þeirra svörtu og hvítu gegn Stjörnunni ári seinna. Þetta eru þó ekki einu bikarúrslitaleikirnir sem Baldur hefur skorað í, því hann skoraði seinna mark Keflvíkinga í 2-0 sigri á KR árið 2006. Það er því ekki að ástæðulausu að hann hefur fengið viðurnefnið Bikar-Baldur. Sjálfur kann hann litlar skýringar á þessu góða gengi sínu í úrslitaleikjum.

„Nei, þetta er nú sjálfsagt bara heppni, að vera á réttum stað á réttum tíma. Þetta hefur fallið fyrir mig, en þessi mörk sem ég hef skorað hafa ekki verið þau fallegustu. Ég hef yfirleitt bara þurft að koma boltanum yfir línuna,“ sagði Baldur í samtali við Fréttablaðið í gær.

„Það væri gaman ef þetta héldi áfram en aðalmálið er að vinnum leikinn. Mér væri sjálfsagt sama ef ég myndi skora tvö sjálfsmörk á morgun, svo framarlega sem við myndum vinna leikinn.“

KR vann nokkuð öruggan 2-0 sigur á Keflavík í 15. umferð Pepsi-deildarinnar á mánudaginn var, en Baldur segir að þrátt fyrir það þurfi KR-liðið að vera á varðbergi í leiknum í dag.

„Keflavík er mikið stemningslið. Það verður mikið af áhorfendum á vellinum og mikil læti og þeir eiga eftir að njóta þess að spila þennan leik. Við þurfum að mæta vel einbeittir til leiks, því mig grunar að þeir eigi eftir að byrja leikinn af miklum krafti. Þeir eru sterkir og fljótir fram á við og við þurfum að hafa góðar gætur á þeim.“

Baldur segir leikinn í deildinni ekki skipta miklu máli í stóra samhenginu.

„Ég held að hann sé farinn inn um annað eyrað og út um hitt. Sá leikur er búinn og ég held að hvorugt liðið taki mikið mark á honum,“ sagði Baldur að lokum.

Sautján ár á milli úrslitaleikja

Keflavík hefur fjórum sinnum orðið bikarmeistari; 1975, 1997, 2004 og 2006, eins og áður sagði. Magnús Sverrir Þorsteinsson, Einar Orri Einarsson og Kristján Guðmundsson þjálfari voru með fyrir átta árum og Magnús Hörður Sveinsson og Haraldur Freyr Guðmundsson unnu bikarinn 2004.

Jóhann B. Guðmundsson er hins vegar sá eini í Keflavíkurliðinu í dag sem tók þátt í bikarsigrinum 1997, en Keflvíkingar höfðu þá betur gegn ÍBV eftir vítaspyrnukeppni í endurteknum leik. Jóhann vonar að reynsla hans frá því fyrir sautján árum nýtist vel í dag.

„Reynslan skiptir alltaf einhverju máli. Nokkrir okkar hafa tekið þátt í svona leikjum áður og við getum miðlað af þeirri reynslu til hinna,“ sagði Jóhann og bætti við: „Það er gott að vita að hverju maður gengur og það er mikilvægt að hafa menn sem geta hjálpað til með að róa taugar þeirra sem eru að taka þátt í fyrsta skipti.“

Jóhann er sammála Baldri um að deildarleikurinn á mánudaginn var skipti litlu máli í dag.

„Þetta verður allt öðru vísi leikur. Menn voru með hugann við bikarúrslitaleikinn og bæði lið hvíldu leikmenn. Ég held að hann hafi ekki mikið að segja fyrir leikinn í dag.“

Átta stig skilja KR og Keflavík að og Jóhann segist meðvitaður um styrkleika Vesturbæinga.

„Þetta eru Íslandsmeistararnir. Þeir eru með gríðarlega góða einstaklinga og marga ólíka leikmenn sem við þurfum að passa vel upp á. En þetta verður gaman fyrir okkur. Það er ekki jafn mikil pressa á okkur og KR.“

Jóhann, sem spilaði lengi sem atvinnumaður, býst við margmenni á leiknum.

„Ég efast ekki um að það verði margir frá Keflavík. Það er langt síðan við spiluðum bikarúrslitaleik síðast og Keflvíkingar eru duglegir að fjölmenna á leiki, og þá sérstaklega útileiki,“ sagði Jóhann að endingu.


Tengdar fréttir

Hver man hvað gerðist fyrir 50 árum?

Guðjón Guðmundsson ræddi við tvær kempur úr Keflavík og KR sem urðu meistarar 1964, en liðin mætast í úrslitum Borgunarbikarsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×