Skoðun

86 km af stikuðum gönguleiðum

Haraldur Sverrisson skrifar
Mosfellsbær er fallegur bær, umlukinn fellum, ám og vötnum. Tengslin við náttúruna eru sterk í þessu fallega bæjarstæði og er bæjarfélagið vinsælt til búsetu fyrir áhugafólk um útivist og íþróttir. Í Mosfellsbæ hefur á undanförnum árum verið unnið að ansi merkilegu verkefni, þ.e. að stika gönguleiðir um fjöll, dali og vegleysur í bæjarfélaginu. Verkefnið er unnið í samvinnu við Skátafélagið Mosverja.

Mosverjar hafa nú í nokkur ár staðið fyrir 7 tinda hlaupinu en það er 37 km hlaup eftir þessum stikuðu leiðum en einnig er boðið upp á styttri vegalengdir. 7 tinda hlaupið verður haldið 30. ágúst næstkomandi. Markmiðið með lagningu stikaðra gönguleiða er að auðvelda almenningi aðgang að ósnortinni náttúru útivistarsvæðis Mosfellsbæjar. Þar eru margar náttúruperlur og sögulegar minjar sem sagt er frá á sérstökum fræðsluskiltum sem sett hafa verið upp í tengslum við verkefnið.

Fjölbreyttir möguleikar

Verkefnið um stikaðar gönguleiðir var sett að stað árið 2009. Nú hafa verið stikaðar leiðir sem eru samtals um 86 km að lengd. Við upphaf hverrar gönguleiðar er sagt frá leiðinni bæði hvað varðar landhagi og lengd og á hverri leið eru vegprestar sem sýna vegalengdir og krossgötur.

Að ganga á fellin umhverfis Mosfellsbæ er holl og skemmtileg afþreying fyrir alla fjölskylduna. Nauðsynlegt er að velja gönguleiðir sem henta aldri og getu hvers og eins og eftir góða göngu er tilvalið að skella sér í Lágafellslaug, eina af vinsælustu sundlaugum landsins. Gert hefur verið greinargott kort af gönguleiðum sem nálgast má á vef bæjarins www.mos.is. Þetta er jákvætt og hvetjandi verkefni sem styður allt sem Mosfellsbær vill standa fyrir. Við Mosfellingar bjóðum allt göngu- og útivistarfólk velkomið að njóta fallegrar náttúru Mosfellsbæjar og nýta sér stikuðu gönguleiðirnar í vor og sumar. Verið velkomin í Mosfellsbæ.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×