Skoðun

Lífið í ESB er ostur fyrir ost

Guðni Ágústsson skrifar
Evrópusambandið er sjálfu sér samkvæmt í allri tollaumræðu. Það er líka alþjóðastofnunin WTO, ekkert er gefið eftir hvað tollkvóta og markaðsaðgang varðar. Lífið á þessum stöðum er kaup kaups, vara fyrir vöru.

Og að auki hefur ekkert gerst hjá WTO í tíu ár hvað viðskipti með landbúnaðarafurðir varðar. Það hentar ekki stóru þjóðunum. Enn lifir setning gamla Bush forseta, það verður ekki samið í GATT nema það sé hagstætt fyrir bandaríska bændur.

Nú telur verslunin hér að ríkisstjórnin eigi að heimila innflutning á öllu sem ekki er framleitt í landinu. Hagar sækja um að flytja inn án innflutningstolla geita-, ær- og bufflaosta, þeir séu ekki framleiddir hér þótt þeir séu fáir sem eru að biðja um þessa osta.

Á sama tíma sækir mjólkuriðnaðurinn um að stækka skyrkvóta sinn í ESB úr 380 tonnum í 4.000 tonn. ESB segir nei, við viljum osta til Íslands án tolla í staðinn. Ekkert er gefið eftir, þó eru Evrópubúar vitlausir í að kaupa íslenskt skyr og eftirspurnin mikil í nokkrum löndum eftir þessari hollustuvöru.

Ekkert gefið eftir hjá ESB

Þegar ég sem landbúnaðarráðherra samdi um það við ESB að fella burtu alla tolla af íslenska hestinum, beggja hagur, lifandi dýr tómstundagaman fólksins, varð ESB að fá að flytja inn bæði kjöt og osta á lækkuðum tollum og garðplöntur í staðinn. Þannig og aðeins þannig náðist þetta hagsmunamál fram og málið snerist ekki um kjöt þótt hrossakjöt sé vinsælt þar eins og hér.

Það er því ekkert einfalt til í þessum viðskiptum og ekkert gefið eftir ESB-megin, þeir eru harðir í horn að taka. Í ESB er fimm hundruð milljóna manna markaður en á Íslandi þrjú hundruð og tuttugu þúsund. Fjögur þúsund tonn af skyri eru sletta fyrir þá en þeir vilja fá sitt í staðinn og ekki miða það við magn per mann eða maga.

Þótt við ættum osta úr álfakúm sem ekki væru til þar myndu ESB og WTO hrista höfuðið og segja nei, vara kemur fyrir vöru, þetta eru viðskipti.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×